131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[17:41]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð í lok umræðunnar til áréttingar fyrri sjónarmiðum. Ég vakti athygli á því í ræðu minni að afleiðingarnar af þeim kerfisbreytingum sem nú hefðu verið innleiddar á Íslandi og væru þegar orðnar að veruleika í Evrópusambandinu, að hluta til a.m.k., væru stórhækkaður raforkureikningur þjóðanna, það væri því miður að ganga eftir hér sem annars staðar. Það hefur verið rætt í umræðunum nú á hvern hátt væri hægt að draga úr þeim ójöfnuði sem væri að myndast í landinu á þessu sviði og að þá væri horft til skattpyngjunnar. Þetta er sama formúlan og við þekkjum úr símkerfisbreytingunum, einkavæðingu eða markaðsvæðingu í símkerfunum, að þar er nákvæmlega hið sama að gerast, þá horfa menn til skattborgarans um að koma inn í myndina.

Ég vék að nýlegri skýrslu frá Evrópusambandinu þar sem gerð er úttekt á stöðu samkeppnismála á raforkumarkaði í Evrópusambandinu. Ég vakti athygli á að í 18 ríkjum af 25 sem könnunin tók til væri ekki búið að framkvæma til fulls tilskipanir sem unnið er samkvæmt, en það eru tilskipanir frá 1992 og svo aftur frá 2003.

Eitt var það sem ég fór rangt með í því tali mínu fyrr í dag og það var að Kýpur og Malta stæðu utan raforkutilskipunarinnar, hefðu ekki tekið raforkutilskipunina upp. Þetta er ekki rétt. Hið rétta er að í skýrslunni kemur fram að aðstæður á Kýpur og Möltu séu með þeim hætti að könnunin taki ekki til þeirra. Þar eru ekki markaðsaðstæður og því ekki hægt að meta málin á sama hátt og gert er annars staðar í Evrópusambandinu, að dómi þessarar rannsóknarnefndar.

En það er margt annað athyglisvert sem kemur fram í skýrslunni, t.d. áhyggjur af því að fjárfestingar í þessum geira séu ekki með þeim hraða sem vænst hefði verið. Þetta er reyndar nokkuð sem hefur borið mjög á góma á Norðurlöndum þar sem raforkukerfin hafa verið markaðsvædd, að menn hafa áhyggjur af því að það dregur úr fjárfestingu í kerfunum. Fjárfestar eru ákafir að fá arð af fjármagni sínu út og hugsa ekki nægilega vel um að setja peninga í nýjar fjárfestingar.

Annað sem kemur fram í skýrslunni er að það virðist stefna í fákeppnisátt. Skýrsluhöfundarnir segja að víða stefni í að jafnvel eitt eða tvö fyrirtæki séu ráðandi á markaði en það stefni ekki í þá samkeppni sem menn höfðu vonast til.

Að lokum árétta ég það sem ég sagði í lok ræðu minnar í dag, að þegar allt kemur til alls hef ég trú á því að Íslendingar vilji ekki það misrétti sem hér hefur verið að skapast og gæti skapast í raforkunni í landinu. Mér finnst eðlilegt að í stað þess að einskorða vinnuna á vinnuborði ríkisstjórnarinnar komi allt þingið að þeirri vinnu og ég árétta þá tillögu að fjárlaganefnd og iðnaðarnefnd verði falið það verkefni. Við erum reiðubúnir að taka þátt í þeirri vinnu á uppbyggilegan hátt.