131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarráðherra um framkvæmd raforkulaga.

[17:50]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil við lok umræðunnar þakka fyrir hana. Hún hefur verið upplýsandi og það skiptir máli á þessum tímapunkti að ræða þetta mál. Auðvitað hefur umræðan einskorðast mjög við húshitunina sem eðlilegt er. Það hefði verið áhugavert að fara líka í framtíðarsýn og margt fleira en við fáum kannski tækifæri til að ræða það síðar.

Vegna þess að ekki hefur gefist nægjanlegur tími til að tala um garðyrkjubændur og fiskeldið vil ég taka fram að þetta eru málaflokkar sem heyra ekki undir mig heldur undir landbúnaðarráðherra. Ég kem ekki að þeirri samningagerð sem þar fer fram, hún fer fram á milli fyrirtækjanna og orkufyrirtækja, sérstaklega Landsvirkjunar. Ég get engu að síður farið aðeins yfir það mál.

Það er þannig að með aðlögunarsamningi milli ríkisins og garðyrkjubænda frá árinu 2002 er ylræktendum tryggt raforkuverð með niðurgreiðslum sem er sambærilegt við það sem er einna lægst í boði hjá nágrannaþjóðum okkar. Að auki veitti Landsvirkjun Rarik helmingsafslátt allt frá árinu 1997 af verði fyrir afli sem notað var til lýsingarinnar. Landsvirkjun felldi þann afslátt niður í mars sl. og Rarik bar kostnaðinn við aflkaupin út árið 2004. Frá og með síðustu áramótum munu garðyrkjubændur þurfa að greiða fyrir það afl sem þeir nota sem hefur vaxið umtalsvert á undanförnum árum nema sérstakt samkomulag náist um að taka á málinu á einhvern sérstakan hátt. Eins og landbúnaðarráðherra greindi frá áðan kostar það einhverja fjármuni en þetta er til umræðu innan ríkisstjórnarinnar og allir gera sér grein fyrir því að þarna er um gríðarlega mikilvægan atvinnuveg að ræða og ég trúi ekki öðru en á því finnist einhver viðunandi lausn.

Í sambandi við fiskeldið þá samþykkti stjórn Landsvirkjunar árið 1997 tímabundinn afslátt á rafmagni til nokkurra fiskeldisfyrirtækja og vonir voru um eflingu þeirrar atvinnugreinar sem mundi leiða til aukinnar rafmagnssölu. Þetta var í upphafi tímabundinn afsláttur til ársins 2002 en hefur þó haldið áfram og numið rúmlega 30 millj. kr. á ári. Landsvirkjun tilkynnti í árslok 2003, fyrir meira en ári, að afslátturinn yrði felldur niður á árinu 2004 en samkomulag náðist um að frestað yrði að fella niður afsláttinn um eitt ár meðan óljóst væri hvernig ný skipan raforkumála mundi reynast fyrirtækinu. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef hefur verið fallist á að framlengja afsláttarkjörin í eitt ár enn sem boðið hefur verið upp á og hafa verið í framkvæmd. Þar af leiðandi er þetta mál ekki stórt vandamál í dag en þó er ekki búið að leysa það til allrar framtíðar.

Um sameiningarmál og framtíðarsýn mína í sambandi við raforkumál og eign ríkisins í raforkufyrirtækjum þar sem ég fer með eignarhaldið er það ósköp einfaldlega þannig að ég tel mjög áhugavert að sameina Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða. Ég tel að það skipti miklu máli til þess að það samkeppnisumhverfi sem við erum að reyna að skapa verði gagnsærra og virkara í framkvæmd. Þó þetta hljóði kannski þannig að verið sé að skerða samkeppnina er það reyndar ekki vegna þess að það er náttúrlega þannig í þessu nýja umhverfi að það þarf hvort sem er að vera aðskilnaður á milli rekstrarþátta sem yrði í þessu nýja fyrirtæki. Ríkið á þau öll hvort sem er ef það tekst sem er til umfjöllunar að kaupa Reykjavík og Akureyri út úr Landsvirkjun. Þar af leiðandi mundi verða mikil hagræðing af þessu og ég trúi því að hún mundi endurspeglast í raforkuverði til framtíðar.

Ég vil segja það almennt um verðumræðuna, gjaldskrárumræðuna og að verið sé að koma á einhverju ójafnræði með kerfisbreytingunni þá er það bara ekki rétt. Er hægt að hugsa sér meira jafnræði en það að hvert heimili í landinu geti valið hvar það kaupir raforkuna? Er ekki mikið frelsi því samfara? (Gripið fram í.) Það velur það fyrirtæki sem það vill skipta við og það er stórkostlegt skref sem er stigið í jafnréttisátt með þeirri ákvörðun. Ég man eftir því að í umræðunni áður sagði einhver þingmaður: Verður hægt að koma á samkeppni á Ströndum? Honum fannst það eitthvað útilokað en það er einmitt það sem er hægt með þessu, að koma á samkeppni á Ströndum. Strandamaðurinn getur eins og hver annar ákveðið af hverjum hann kaupir raforkuna og af því að Suðurnesjamaðurinn er hérna og talar drjúgt um Suðurnesin þá getur bara vel verið að Hitaveita Suðurnesja eigi sjens í viðskipti af Ströndum ef út í það er farið. (ÖJ: Þetta eru miklar hugsjónir.) Já, þetta eru miklar hugsjónir. Ég hlýt að mega tala um Strandir eins og hver annar.

Fyrst vitnað var í orð orkumálastjóra, að hann hafi talað um að hækkunin yrði 1%–2,5%, þá hefur hann að öllum líkindum verið að tala um þá hækkun sem gæti orðið vegna kerfisbreytingarinnar að jafnaði. Eins og fram kom í máli mínu áðan er stofnkostnaðurinn við Landsnetið 100 millj., það er bara einu sinni greiddur stofnkostnaður, og hins vegar 40 millj. á ári vegna eftirlits. Þetta er hinn nýi kostnaður vegna kerfisbreytinganna og ekki hægt að segja að það sé mikill kostnaður. Hins vegar verða þingmenn að átta sig á því að raforkufyrirtæki hafa sum hver verið rekin með halla og nú, þegar þau hafa fengið sitt sjálfstæða líf, eru þau að gera arðsemiskröfu eins og nauðsynlegt er í öllum fyrirtækjarekstri, ég held að við hljótum að geta verið sammála um að það þarf að gera einhverja arðsemiskröfu. Þau eru að gera arðsemiskröfu til að geta rekið fyrirtæki sín þannig til framtíðar að það verði einhver skynsemi í þeim rekstri. Hins vegar er þetta allt ákveðnum takmörkunum sett. Orkustofnun hefur eftirlitið og er vel til þess búin að mínu mati og því geta menn ekki haft frjálsar hendur hvað þetta varðar.

Ég sé að klukkan er farin að blikka á mig, ég náði ekki að svara hv. þm. Kristjáni L. Möller en get væntanlega gert það í andsvari.