131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[18:04]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að ég fer með eignarhlut ríkisins í Landsvirkjun og skipa stjórn Landsvirkjunar. Þaðan kom beiðni um að iðnaðarráðuneytið staðfesti að henni væri heimilt að gera samninga beint við fiskeldið. Við teljum ekki að við séum úrskurðaraðilar í þeim efnum. Hins vegar fór Orkustofnun yfir málið og hún telur, og fullyrðir það, að ekkert sé því til fyrirstöðu miðað við lögin að beinir samningar séu á milli framleiðanda og kaupenda, í þessu tilfelli þá Landsvirkjunar og fiskeldisfyrirtækja.