131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[18:15]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það liggur þá a.m.k. fyrir eftir umræðuna í dag nokkuð skýr yfirlýsing um það frá hæstv. iðnaðarráðherra að það sem hún sér fyrir sér í framtíðinni er að þessi fyrirtæki, þ.e. orkufyrirtækin í landinu, verði seld sameinuð eða í bútum. Hæstv. ráðherra hefur einnig lýst því yfir að hún telji að það sé mjög áhugaverður kostur og eðlilegt að stefna að því að sameina Orkubú Vestfjarða, Rarik og Landsvirkjun. Mér finnst það reyndar í algerri mótsögn við það sem lagt var upp með í þessu máli í upphafi, að stefna að því að auka samkeppni í landinu, auka samkeppni í raforkuverði og ná þannig niður verðinu með því að láta fyrirtækin keppa um viðskiptamenn og sölu. Ég átta mig ekki alveg á hvernig þessi markmið fara saman, þ.e. annars vegar að tryggja samkeppni og láta fyrirtækin keppa um viðskiptamenn og þá sem vilja kaupa af þeim rafmagn en hins vegar að sameina öll þessi fyrirtæki í eitt fyrirtæki.

Allt að einu held ég að niðurstaðan sé sú sem ég sagði í fyrri ræðu minni í dag, að sennilega væri þetta hringferð peninga til að gera fyrirtækin að betri söluvöru þegar upp verður staðið, að setja inn arðsemiskröfu og ná henni jafnvel upp í 7,8% innan fárra ára og gera fyrirtækin eignalega eða fjármunalega sterkari, minna skuldsett og þannig að betri söluvöru. Þá höfum við farið þá vegferð að með breytingu á lögunum höfum við hækkað orkuverðið, látið fólkið í landinu bera aukinn kostnað af því og brugðist við hluta af vandamálinu með auknum niðurgreiðslum sem teknar eru úr ríkissjóði. Peningarnir sem komið hafa fyrir orkuna hafa hins vegar runnið til orkufyrirtækjanna og þau eru þá væntanlega með betri eignastöðu og verða þar af leiðandi betri söluvara og skýrist þá það sem sagt var hér síðast að að því væri stefnt eða hæstv. ráðherra sæi það fyrir sér að raforkugeirinn í heild sinni, öll raforkufyrirtæki landsins yrðu seld og hér kæmi upp einkarekstur raforkufyrirtækja. Það hefur þó a.m.k. eitthvað skýrst við þessa umræðu í dag, hæstv. forseti.

Aðeins tvennt í viðbót sem ég ætla að nefna við lok umræðunnar. Í fyrsta lagi 200 íbúa viðmiðunin. Ég fæ engan botn í það, og verða menn að virða mér það til vorkunnar, hvernig hægt er að færa rök fyrir því að þegar íbúar verða 201 lækki kostnaðurinn í byggðarlaginu um alveg helling, eins og dæmið á Vestfjörðum um Súðavík. Ef mönnum tækist að skrá þar ættmenni sín og fjölga íbúum upp í 201 dúndraðist kyndingarkostnaðurinn niður. Hvað hefur breyst í dreifingu raforkunnar við það? Ekki nokkur skapaður hlutur.

Sama má segja um bóndabýlið sem er nánast við hliðina á háspennulínunni sem rafmagnið hefur verið tekið úr, bæði til ljósa og hita. Ekki er hægt að færa rök fyrir því að þar sé dreifingarkostnaðurinn mikill því að línan liggur kannski frá aflveitustöðinni til aðalbyggðarkjarnans um lóðina og rafmagnið alltaf verið tekið úr línunni. Þetta eru auðvitað spurningar sem maður spyr en fær engin svör við og ég held að það séu engin rök á bak við svörin ef þau koma.