131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[15:56]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra fór nokkrum orðum um spurningar mínar í ræðu sinni, þar á meðal spurningu mína um sjálfbæra nýtingu. Hún svarar spurningunni á þann veg að í huga hennar sé sjálfbær nýting „sú nýting sem ekki spillir framtíðarnýtingu, sem ekki spillir auðlindinni til framtíðar“.

Í grundvallaratriðum get ég verið sammála þessari setningu hæstv. ráðherra. Ég spyr þá, í tilefni af því að ég tel vera ástæðu til að tortryggja yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í þessum efnum: Hvernig má þá vera að íslensk stjórnvöld ganga fram fyrir skjöldu með virkjanaframkvæmdir sem eru langt í frá að vera sjálfbærar þar sem þær spilla viðkomandi auðlind til frambúðar? Hvernig leyfa íslensk stjórnvöld sér það að kalla virkjanir í jökulvötnum með uppistöðulónum sem fyllast á tilteknum tíma sjálfbærar framkvæmdir eða sjálfbæra nýtingu?

Ég hef ástæðu til að tortryggja ríkisstjórnina í þessum efnum. Þess vegna tortryggi ég það sem sagt er í frumvarpinu. Þegar hæstv. iðnaðarráðherra ætlar að fara að tala fyrir sjálfbærri nýtingu eru það verkin sem tala og sýna mér fram á að þessi ríkisstjórn veður í villu og svíma hvað varðar skilninginn á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.

Ég vil fá að spyrja hæstv. ráðherra hversu mikil vinna hafi verið lögð í það við samningu þessa frumvarps að bera saman nýju vatnalögin í Noregi og það sem hér á að fara að gera. Það er verulega þýðingarmikið að við skoðum löggjöf Norðmanna því að eins og ég gat um í fyrri ræðu minni tók það mörg ár að vinna hana, fjöldi manns kom þar að og þar var einmitt horft vítt yfir sviðið, nákvæmlega á sama hátt og Norðmenn gerðu í rammaáætlun sinni um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Þar var virkjanakostum skipt í fjóra flokka, þar af var bara einn flokkurinn þess eðlis að orkufyrirtækjum væri heimilt að sækja um orkunýtingu þar úr.