131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[16:02]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hún heldur áfram, umræðan sem byrjaði í síðustu viku um þetta mál. Það kom reyndar flatt upp á ýmsa þingmenn hversu skyndilega þetta mál birtist á dagskrá Alþingis. Menn kvörtuðu undan því, umræðunni var frestað og heldur nú áfram.

Það kemur fram í lýsingu með frumvarpinu að þeir sem hafa búið það til framlagningar benda á að í athugun þeirra eða nefndarinnar sem vann frumvarpið var skoðaður ferill mála þar sem reynt hefur á vatnalög, sem hafa verið í gildi allan þennan tíma frá 1923. Þeir segja að í raun hafi reynt á sárafá ákvæði gildandi laga fyrir dómstólum og helst á hinar einstöku meginreglur laganna.

Það er athyglisvert að svo vel hafi verið staðið að málum á þeim tíma er lögin voru sett að þau hafi enst með þeim hætti og að sjaldan hafi orðið málaferli og ágreiningur um þær reglur. Það er þess vegna full ástæða til þess að vanda, eins og hæstv. ráðherra var að lýsa, undirbúning að breytingu á svona lögum því að væntanlega liggur þá ekki mikið á að breyta þeim ef ekki hafa komið upp vandamál við að framfylgja þeim og lítill ágreiningur um lögin. Þess vegna finnst mér, og ég ætla að segja það aftur, ekkert á móti því að skoða breytingar á þessum lögum en mér finnst ástæða til að hér fari menn vandlega yfir hugmyndir um breytingar og taki til þess nægan tíma vegna þess hvernig mál standa.

En ég ætla að nefna fáein atriði sem ég vonast til að hæstv. ráðherra gæti upplýst okkur um. Mér finnst t.d. við að lesa 9. gr. frumvarpsins og líka 20. gr. að í þeim felist afstaða til þess hvernig mál eru sett fram, þ.e. þannig að eigendur sem vilja virkja eigi að hafa meiri rétt en aðrir eigendur sem ekki vilja það þar sem nýtingarréttur liggur saman. Ég held að þetta sé dálítið umhugsunarefni.

Það stendur t.d. hérna í 9. gr.:

„Nú eiga menn fasteign í félagi og vilja sumir stofna til vatnsveitu til heimilis- og búsþarfa á eigninni, koma þar á fót samáveitu, stofna til vatnsmiðlunar eða verjast ágangi vatns og getur þá sá eða þeir sem eiga meiri hluta fasteignar ákveðið að ráðast í framkvæmdir, enda er hinum þá skylt að taka tiltölulegan þátt í kostnaði …“

Menn væru sem sagt skyldugir til þess að taka þátt í að nýta orku sem er til staðar á sameiginlegu svæði ef meiri hluti þeirra sem eiga hlut að eigninni vilja það. Verði ekki samkomulag um framkvæmd eða umsjón verksins eða um skiptingu kostnaðar þá skal skorið úr með mati dómskvaddra matsmanna. Þar kemur síðan ráðherra til og tryggir framkvæmd þeirra hluta ef á þarf að halda.

Í 20. greininni stendur, og þar er um að ræða rennandi vatn :

„Nú vill eigandi annars vatnsbakkans ekki taka þátt í mannvirkjagerð og getur ráðherra þá heimilað eignarnám til afnota af landi hans til að framkvæma verkið og nota vatnið.“

Mér virðist af lestri frumvarpsins í heild sem það sé fyrst og fremst hugsað út frá nýtingarréttinum, orkunýtingarréttinum, fremur en sameign þar sem báðir eigi að vera jafnréttháir, ef tveir deila um nýtingu á orku eða vatnsnotum. Niðurstaðan þarf ekki endilega að vera sú að menn virki hvern einasta læk þótt annar aðilinn vilji það frekar. Það getur verið að nýtingin felist í því að virkja ekki og nýta kostina með öðrum hætti. Ég vildi a.m.k. koma þessu á framfæri.

Fleira finnst mér óljóst í frumvarpi þessu. Í 11. gr., sem er um landamerki í stöðuvötnum, stendur t.d. á einum stað:

„Nú vex gras upp úr vatni við lágflæði og fylgir vatnsbotn þá landi sem þurrt land væri.“

Nú er gras kannski ekki mjög stabílt sem viðmiðun og mér finnst svolítið skrýtið að það skuli vera tekið fram. Þessi grein endar á eftirfarandi orðum:

„Ef breyting verður á vatnsbotni skulu netlög vera þar sem þau voru áður.“

Til hvers er verið að tala um þetta gras? Ég velti þessu svolítið fyrir mér og hvort það geti verið í lagi að hafa þetta inni. Kannski eru þetta leifar úr gömlu lögunum. Ég gáði hreinlega ekki að því en ég held að það mætti frekar varðveita eitthvað annað en þessi ákvæði, hafi þau verið þar inni.

Mér finnst það líka óskýrt í 12. gr. þar sem stendur:

„Nú liggja tvær fasteignir eða fleiri að stöðuvatni eða vatnsfalli sömu megin og fylgja þá netlög þeim bakka sem næstur er hverju sinni.“

Ég bið um skýringar. Ég skil ekki þetta orðalag og meðgeng það hér í ræðustól. Þetta er mjög stutt grein og ég bið hæstv. ráðherra að útskýra hana fyrir mér.

Ég ætla að lesa hana aftur:

„Nú liggja tvær fasteignir eða fleiri að stöðuvatni eða vatnsfalli sömu megin og fylgja þá netlög þeim bakka sem næstur er hverju sinni.“

Textinn er þannig að ég átta mig ekki á honum.

Í 14. gr. er fjallað um heimild til að fella vatnsfall í fornan farveg eða koma honum í samt lag:

„Nú hefur sama ástand haldist í 20 ár eða lengur og skal þá um það fara svo sem það hefði að fornu fari verið svo.“

Nú spyr ég: Geta menn ekki misskilið þessa málsgrein og farið að líta þannig á að breyting verði á landamerkjum ef vatnsfall hefur breytt um farveg og runnið í 20 ár í öðrum farvegi? Annars staðar í lögunum stendur þó að þótt vötn breyti farvegi sínum skuli landamerki haldast. Ég spyr um þetta. Ég hef skilið málið þannig fram að þessu að það væri ekki meiningin að landamerki breyttust. Það virðist a.m.k. hægt að misskilja þetta orðalagið í 14. gr.

Í kaflanum um nýtingu vatnsorku, þar sem er talað um takmarkanir á orkunýtingarrétti, stendur í 18. gr.:

„Orkunýtingarréttur fasteignareiganda takmarkast við það að enginn sé sviptur vatnsnotum …“

Erum við að tala um orkunýtingu eða vatnsnotkun? Fyrra orðið er orkunýtingarréttur en það seinna er vatnsnot. Ég spyr hvort þau eigi bæði við í þessu tilfelli.