131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[16:31]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Í 3. gr. frumvarpsins sem um er rætt eru skilgreiningar. Þar er m.a. orðið „búsþarfir“ skilgreint. Ég verð að segja að við fyrstu sýn þótti mér dálítið sérkennilegt að orðið sjálft væri meginuppistaðan í eigin skilgreiningu því búsþarfir eru skilgreindar þannig, með leyfi forseta: „Búsþarfir til kvikfjárræktar.“ En þegar maður lítur aftar í frumvarpið kemur í ljós að ástæðan fyrir því er sú að verið er að taka undan allt í þörfum búsins annað en kvikfjárrækt. Ég ætla að koma að þessu atriði síðar í tengslum við annað.

Áður var rætt nokkuð um netlög. Ég skil það þannig að netlög séu sett til þess að marka nýtingarrétt við að leggja net og veiða fisk úr vötnum og ám. Þar er sem sagt verið að marka eiganda jarðar svæði sem hann getur nýtt til eigin hagsbóta. Með því hvernig þetta er orðað í síðustu setningu 11. gr. er hætt á að eigandi jarðar missi algjörlega rétt til nýtingar á þessum hlunnindum á jörðinni sinni því farið getur svo, og gerist reyndar oft, að vatnsbakki breytist og vötn geta fyllst upp, það gerist m.a. með því að sef vex út frá bökkunum og fyllir smám saman í vatnið. Samkvæmt þessum lögum, sem hugsanlega má finna einhvers staðar að þau stangist á hvað þetta varðar, virðist bóndi eða eigandi jarðarinnar geta tapað réttinum. Á sama hátt og rétturinn getur líka aukist ef vatnsbakkinn breytist eða vatn dýpkar. Ég sé því ekki ástæðu til að skerða nýtingarrétt landeiganda eða ábúanda á jörðinni með þessu móti og legg til að þetta atriði verði skoðað vandlega.

Ég vil taka undir með þeim sem hafa talað um 13. gr. og hrósað góðu málfari á fyrstu setningunni. Mér sýnist reyndar þegar ég les yfir frumvarpið að það leyfi allt sem þessi grein bannar, nema hugsanlega 3. tölulið, og bendi t.d. á 22. gr. Ég velti því fyrir mér hvort skýringin á þessu sé sú að verið sé að rýmka nýtingarréttinn fyrst og fremst með tilliti til orkunýtingar af því mér virðist á frumvarpinu að heimildir til orkunýtingar séu umtalsverðar, þ.e. nýting á vatni til orkuframleiðslu.

Í VI. kafla, 18. gr., er talað um takmarkanir á orkunýtingarrétti. Þegar ég las yfir lagafrumvarpið var mér hugsað til jarðalaga sem við samþykktum á síðasta þingi. Þar er í einhverri greininni ef ég man rétt talað um að landeigandi hafi rétt til að virkja á landi sínu allt að 2 megavöttum, sem er umtalsverð orka, en í 18. gr. er ekki sett neitt hámark á orkunýtingarrétt landeigenda. Ég sé því ekki betur en þessi tvenn lög stangist á hvað þetta varðar því í 18. gr. er aðeins ein takmörkun sett á, en það er 15. gr. sem segir að vatnstaka til heimilis og búsþarfa gangi fyrir annarri vatnsnýtingu en ekkert í þeirri grein bannar að nýta til fulls vatnsréttindi að öðru leyti. Það er því spurning hvor lögin gangi lengra í þessu tilfelli.

Í 21. gr. er fjallað um heimild til framkvæmda. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ef fasteignareigandi gerir stíflu í vatnsfarvegi og veitir vatni úr náttúrulegum farvegi, hvort sem er um opinn skurð, pípu eða jarðgöng, ef nauðsynlegt er vegna vatnsnota, skal þess gætt að ekki séu gerðar skemmdir á fasteignum annarra manna um nauðsyn fram.“

Mér spurn: Hver dæmir um þá nauðsyn? Er það jarðeigandinn sjálfur, eða hvað? Það er ekkert sagt um það í greininni og ekki í skýringunum heldur.

Í 22. gr. segir, með leyfi forseta:

„Heimilt er fasteignareiganda að breyta vatnsfarvegi, víkka hann eða rétta, gera nýjan farveg eða önnur þau mannvirki í vatni eða við það sem nauðsynleg eru …“

Enn kemur þetta „nauðsynleg eru“ án þess að nokkur skýring sé gefin á því hver eigi að meta þá nauðsyn. Mér finnst þetta galli á frumvarpinu. Ég segi aftur að mér finnst lögin bera dálítinn virkjanasvip og ekki vera nógu skýr og bjóða víða upp á að leita þurfi skýringa á því sem í þeim stendur.