131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[16:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma inn á nokkur atriði eftir að hafa hlýtt á umræðuna en fyrst langar mig aðeins að nefna vinnubrögðin í þinginu. Ég furða mig á því, af því að málið er að fara til iðnaðarnefndar, að hér hefur varla sést stjórnarþingmaður í salnum meðan öll þessi umræða hefur farið fram og alls ekki hefur formaður nefndarinnar sem á að fara að fjalla um málið í nefndinni hlustað á neinar athugasemdir sem fram hafa komið um málið. Ég gagnrýni harðlega að sá stjórnarþingmaður sem er í þessu tilviki hv. þm. Birkir J. Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, skuli ekki vera viðstaddur og hlýða á þingmenn sem eru að gera mjög miklar athugasemdir við frumvarpið, sem þyrfti auðvitað að vera veganesti hans inn í nefndina þegar við förum að vinna í nefndinni. (Gripið fram í: Hjálmar er nú kominn í dyrnar.) Það dugar lítt til þó þingflokksformaður reki inn nefið, formaður nefndarinnar þarf að stýra vinnunni og hann hefur a.m.k. ekki sýnt sig í þingsalnum.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að nefna fyrir utan þetta. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að menn gagnrýni að verndarlögin skuli ekki koma inn samhliða þessum lögum. Það þarf að skoða þetta í samhengi. Verið er að taka verndarþætti út úr gildandi lögum.

Eins og ég benti á í fyrri umræðu minni er 83. gr. tekin út og hvergi í lögum er tekið á þeim þætti, að einhverju leyti í lögunum um hollustuhætti og mengunarvarnir en ekki að fullu leyti. Ég vil spyrja hæstv. umhverfisráðherra ef hún heyrir mál mitt, ég sé hana ekki hér, hvort hún geti svarað því hvort þau atriði sem greinin tekur til, um óhreinkun vatna og mengunarþáttinn í gildandi vatnalögum, komi einhvers staðar fyrir í lögum sem snúa að umhverfisvernd. Ég vil gjarnan fá það svar frá hæstv. umhverfisráðherra og boðum sé komið til hennar, ég geri ráð fyrir að hún sé í húsinu.

Ég get ekki séð annað en að iðnaðarnefnd þurfi að kalla eftir gildandi reglugerðum um þá þætti sem snúa að þeim ákvæðum sem fara út úr gildandi vatnalögum í dag. Við þurfum að fara yfir það. Það er því mjög mikil vinna fram undan hjá iðnaðarnefndinni við umfjöllun um frumvarpið.

Ég vil líka gagnrýna það sem fram hefur komið í umræðunni að litið hafi verið til vatnalaga í öðrum löndum, aðallega Noregs, að ekki skuli koma fram í greinargerðinni neitt um hvernig farið var eftir því sem var í öðrum löndum og þá sérstaklega í Noregi. Það kemur hvergi fram í greinargerðinni. Ég vissi það ekki fyrr en í umræðunni þegar það kom fram hjá hæstv. ráðherra að menn hefðu skoðað þau lög og litið til þeirra hvað varðaði einhverjar greinar í frumvarpinu.

Ég tek undir að það er margt mjög ruglingslegt í þeim greinum sem við höfum farið yfir og þarf vissulega skýringa við. Ég sé því að það er verulega mikil vinna fram undan hjá okkur í iðnaðarnefndinni. Þess vegna furða ég mig aftur á því að formaður nefndarinnar skuli ekki vera hér til að hlýða á þær athugasemdir. Ég held að hæstv. ráðherra verði að skýra betur þau ákvæði sem gerðar hafa verið athugasemdir við í umræðunni.

Að lokum spyr ég um frumvarpsdrögin, um vatnsverndarfrumvarpsdrögin sem til eru. Menn hafa verið að vinna í starfshópum umhverfisráðuneytis, iðnaðarráðuneytis, Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar. Ég tel fulla ástæðu til þess að við fáum frumvarpsdrögin og skoðum þau með frumvarpinu og spyr eftir því: Hvenær gera menn ráð fyrir að frumvarpið komi inn í þingið, þ.e. frumvarpið sem byggt er á tilskipuninni frá Evrópusambandinu?

Ég tel fulla ástæðu til þess að því sé svarað áður en við ljúkum þessari umræðu um frumvarp til vatnalaga.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill geta þess vegna athugasemda hv. þingmanns að formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkir J. Jónsson, hefur fjarvistarleyfi í dag.)