131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[16:46]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að þessi orð hv. þingmanns dæmi sig sjálf og segi meira um þingmanninn sjálfan en margt annað. Mér finnst full ástæða til þess að formaður nefndar eða a.m.k. varaformaður nefndar sitji hér og hlusti á umræðu um svo stórt og veigamikið mál og hlýði á athugasemdir. Þetta mál er að fara inn til nefndarinnar og það er lágmark að einhver stjórnarþingmaður sé í salnum. Hér hefur einn stjórnarþingmaður rekið inn nefið og nú síðast þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Hann rétt rak inn nefið en hefur ekkert sést í allan dag í allri umræðunni og enginn annar stjórnarþingmaður.

Ég leyfi mér bara að gagnrýna að menn skuli ekki sjá sóma sinn í því að sitja við umræðuna þegar rætt er um mál sem varða þingnefnd þeirra þar sem þeir þingmenn eiga að stjórna umræðunni á næstu vikum og mánuðum. Ég er ekki að segja að menn geti ekki fylgt ástvinum sínum í jarðarför, mér finnst það alveg sjálfsagt og ég hafði ekki hugmynd um það. En þá ætti a.m.k. varaformaður nefndarinnar að vera viðstaddur þannig að nefndarmenn viti hvaða athugasemdir hafa komið fram í umræðunni. Annað er lítilsvirðing við störf þingsins.