131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[16:52]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og sé að hv. þingmenn hafa kynnt sér þetta mál mjög vel. Margar spurningar hafa komið fram um einstakar greinar sem ég tel fyrst og fremst ástæðu til að fara yfir í nefndinni. Margar þeirra eru þess eðlis að það er erfitt að útskýra þær í stuttu máli. Þó tel ég að þetta frumvarp sé í heildina skiljanlegra og einfaldar fram sett en þau lög sem nú eru í gildi. Þau lög hafa reynst vel, ég held að óhætt sé að segja það, enda hafa þau verið í gildi frá árinu 1923. En eins og skiljanlegt er tóku þau fyrst og fremst mið af því bændasamfélagi sem þá ríkti á Íslandi. Þetta frumvarp færir okkur hins vegar nær nútímanum og það hlýtur að vera sameiginlegt áhugamál allra hv. þingmanna að færa löggjöfina nær nútímanum.

Ég hef þegar farið yfir það að umhverfisþátturinn er til umfjöllunar í öðrum lögum þannig að ég ætla ekki að bæta miklu við þar. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var með smáskot á Framsóknarflokkinn eins og honum er tamt og ekkert nema gott um það að segja. En af því hann nefnir alltaf Steingrím Hermannsson í þessu sambandi, að þar með hafi umhverfisvernd horfið úr flokknum, þá ætla ég að upplýsa hv. þingmann um að Steingrímur Hermannsson, a.m.k. hvað varðar Kárahnjúkavirkjun, hefur lýst því yfir á fundum Framsóknarflokksins að hann sé ekki á móti þeirri framkvæmd. Ég held að hv. þingmaður sé annarrar skoðunar um það efni.

Hvað varðar það að vernda og nýta, af því að það var eitt af því sem hv. þingmaður hafði nokkuð mörg orð um, þá geri ég mér fulla grein fyrir því að það fer ekki alltaf saman. Ég vildi leggja áherslu á að í sömu persónunni getur falist áhugi á hvoru tveggja, bæði á að vernda og nýta. Ég tel að ég sé einn þeirra einstaklinga sem þannig hugsa.

Talað er um að Orkustofnun fá þarna of viðamikið verkefni miðað við fyrri verkefni. Ég tel ekki rétt að líta svo á. Orkustofnun hefur breyst mikið með stofnun ÍSOR. Hjá þeirri stofnun störfuðu einhver hundruð manna fyrir nokkrum árum en nú eru þar einhverjir tugir og verksviðið mjög breitt. Ég tel að það sé sniðið verkefni fyrir Orkustofnun að fjalla um eftirlit með þessum lögum og ákveðna stjórnsýsluþætti.

Hvað varðar almannaréttinn þá er hann kannski veikari á Íslandi en í öðrum löndum, ég skal ekki fullyrða um það. Við höfum þó verið að styrkja hann með löggjöf, t.d. með breytingu á náttúruverndarlögum fyrir ekki svo mörgum árum síðan.

Það er talað um að það sé mikill virkjanasvipur á þessu frumvarpi. Ég hef ekki fengið bein dæmi um það enda tel ég að frumvarpið sé mjög áþekkt þeim lögum sem eru í gildi í dag hvað það varðar. Ég held að það sé eitthvað sem hv. þingmönnum dettur í hug þegar ég legg fram mál, að þar hljóti að vera einhver brögð í tafli og hljóti að eiga að auka möguleika á nýtingu vatnsorkunnar. Svo er hins vegar ekki.

Hvað varðar vatnsverndarfrumvarpið þá er það ekki mál sem heyrir undir iðnaðarráðherra. Ég get ekki haft fleiri orð um það en þau sem ég sagði í fyrri ræðu minni. Það er verið að vinna að því og hvað varðar tilskipunina, vatnalagatilskipunina þá er hún í EFTA-nefndinni og mér er ekki kunnugt um hversu langt það verk er komið.

Hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir talaði um að einhver takmörk ættu að vera á orkunýtingarrétti landeigenda. Ég átta mig ekki á hvað hún átti við með því, nema þá að ríkið ætti að eiga þennan rétt eftir að komið væri yfir einhver ákveðin mörk, sem er þessi gamla þjóðnýtingarstefna.

Það er ekki verið að breyta séreignarréttinum. Hann er sá sami og er í núverandi lögum þótt nálgunin sé önnur.