131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[17:02]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þar sem fyrri ræða mín var ekki nógu vel undirbúin vegna þess að málið kom snarlega á dagskrá vannst mér ekki tími í þeirri seinni til að leggja fyrir hæstv. ráðherra allar þær spurningar sem ég ætlaði mér. Ég ætla nú að bæta hér einni við. Hún er um kaflann um vatnafélög.

Það er nefnilega þannig að í þessum kafla eru sjö greinar og þær eru allar almennt orðaðar. Ekki er skylda af neinu tagi þarna inni fyrir menn eða fyrirtæki að taka þátt í stofnun þessara vatnafélaga. Þess vegna eiga bara við almenn ákvæði um félög og stofnun fyrirtækja yfirleitt. Ég sé ekki hvað þetta hefur að gera inni í þessari lagasetningu nema þá það sem stendur í 28. gr.: „Þeir fasteignaeigendur sem stofna vilja vatnafélag skv. 27. gr. skulu boða til stofnfundar eigendur þeirra fasteigna sem ætla má að aðild gætu átt að félaginu.“ — Þetta er í raun og veru það eina sem ég sé að hafi þá erindi inn í þessa lagasetningu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Veltu menn því eitthvað fyrir sér hvort þessar greinar um stofnun þessara félaga, allt valkvætt, engin skylda á neinum aðila til að taka þátt í þessu, hafi yfirleitt nokkuð að gera inn í þessa lagasetningu?