131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[17:04]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra segir í ræðu sinni að þingmenn kvarti undan því að það sé virkjanasvipur á þeim frumvörpum sem hún leggi fram. Já, ég skal viðurkenna að við höfum gert athugasemdir við það. Eitt af því sem mér finnst athyglisvert hafa komið fram í þessari umræðu, og hæstv. ráðherra svaraði í raun og veru ekki í neinu núna í síðustu ræðu sinni, er ábending frá hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur sem bendir á að það sé kannski ákveðin mótsögn í meginreglu frumvarpsins sem varðar vatnsföll, nefnilega þeirri reglu að öll vötn skuli renna sem að fornu hafa runnið.

Þessi meginregla varðandi rennsli fallvatnanna kemur fram í 13. gr. frumvarpsins en svo benti hv. þingmaður á mótsögnina í 22. gr. þar sem kemur fram að fasteignareiganda sé heimilt að breyta vatnsfarvegi, m.a. þegar um orkunýtingaráform er að ræða. Mér finnst hæstv. ráðherra hafa skautað fram hjá því að svara þessu en þetta er einmitt eitt af þeim atriðum sem við nefnum sem erum hér með varnaðarorð uppi. Það sýnir okkur fram á það að virkjanahagsmunirnir og hagsmunir orkufyrirtækjanna eru þeir hagsmunir sem hæstv. iðnaðarráðherra ber fyrir brjósti. Við söknum þess að hæstv. umhverfisráðherra skuli ekki láta hér í ljósi sjónarmið sín og við söknum þá þeirra sem maður skyldi ætla að ættu að gæta umhverfisverndarhagsmuna í ríkisstjórninni við umræðu af þessu tagi, í máli sem snertir á svona gífurlega viðurhlutamikinn hátt báða þættina, verndunina og nýtinguna.