131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[17:07]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við vitum það öll sem erum hér í þessum sal að auðvitað þarf leyfi til að veita rennsli vatnsfalla á þann hátt að vötn séu færð á milli vatnasviða. Ég vil í þessu sambandi minna á, af því að ég hef ekki tök á að koma í enn eina ræðu, að á 127. löggjafarþingi var flutt frumvarp af tveimur hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Steingrími J. Sigfússyni og mér, sem varðaði breytingu á vatnalögum. Í því frumvarpi gerðum við ráð fyrir því að bannaður yrði flutningur vatnsfalls með meira meðaltalsársrennsli en fjóra rúmmetra á sekúndu úr fornum farvegi og yfir á annað vatnasvið nema þá að fengnu sérstöku samþykki Alþingis. Ég treysti því að hv. iðnaðarnefnd Alþingis líti á það frumvarp og greinargerðina með því þegar þessi mál verða tekin til umfjöllunar í nefndinni.