131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[17:23]

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er þarft verk hjá hæstv. iðnaðarráðherra að lesa upp úr þingsköpunum. Mér er það vel kunnugt af því að ég er ungur þingmaður og nýr og hef því þurft að leita mér aðstoðar í þingsköpunum við vinnulag í þeim málum sem hér fara fram. Það er rétt að við 1. umr. segja þingsköpin að ræða skuli mál almennt vegna þess að þingmenn hafa ekki haft færi á að kynna sér bakgrunn og álit á einstökum greinum sem upp koma.

Hvað er hið almennasta við frumvarpið sem hér liggur fyrir? Það er hvar málinu skuli skipa í stjórnkerfinu. Það eru þær breytingar sem hafa orðið frá 1923, frá því gamla bændasamfélagi sem stóð þar fyrir aftan og fram til okkar tíma. Það er stofnun umhverfisráðuneytisins og allt önnur stjórnsýsla í framhaldi af því.

Þess vegna, einmitt til þess að ræða frumvarpið á almennum nótum, hefði hæstv. umhverfisráðherra þurft að vera ekki bara viðstödd heldur líka þurft að geta svarað þeim spurningum sem upp komu og vörðuðu fæstar einstakar greinar heldur frumvarpið almennt og síðan spurningar t.d. hjá hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur sem vörðuðu einstaka greinar eða kafla laganna sem byrjar á 83. gr. sem skipta mjög miklu máli fyrir frumvarpið almennt. Því er ósvarað af hálfu hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra þar sem í 83. gr. er tiltekið bann við að menga vötn með ýmsum hætti, sem hefur nú verið tekið út. Við höfum ekki fengið svör við því enn þá af hverju það var tekið út og hvar samsvarandi kafla er að finna í öðrum lögum sem er sjálfsagt að hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra geri grein fyrir.

Einmitt í framhaldi af ákvæðum þingskapa um að ræða skuli almennt þarf að reiða fram hæstv. umhverfisráðherra og svör hennar við þeim spurningum sem upp komu, því vegna þess að þau komu ekki fram hér munu þau koma fram síðar. Þetta háttalag, hæstv. forseti, verður einmitt til þess að tefja störf þingsins og erfiða þau á allan hátt gegn anda þeirra þingskapa sem hæstv. iðnaðarráðherra og viðskiptaráðherra í einni og sömu persónunni las upp áðan öllum til heilla og gagns.