131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[17:56]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kem upp til að lýsa yfir efnislegum stuðningi við þá tillögu sem hér liggur fyrir. Þegar ég segi „efnislegum stuðningi“ þá á ég við að ég tel að sá vilji sem birtist í tillögunni, í þá veru að koma á gjaldfrjálsum leikskóla í áföngum, sé mjög jákvæður og ég tek undir það. Það er hins vegar spurning um sjálfa efnisgreinina, hvort hún eigi að vera nákvæmlega með þessum hætti, þ.e. að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd sem fái það verkefni að undirbúa og annast viðræður um málið við sveitarfélögin.

Það má eftir atvikum láta sér detta í hug að það hefði kannski verið nær að flytja bara tillögu þar sem óskað yrði eftir viðræðum við sveitarfélögin um þetta mál og sveitarfélögin og ríkið mundu sameiginlega, með faghópum, móta stefnu og komast að einhverri niðurstöðu um hvernig ætti að áfangaskipta þessu verkefni. En það er aukaatriði í þessu máli. Efnislega er þessi tillaga mjög svo góð og ég styð hana heils hugar.

Eins og fram kom í máli 1. flutningsmanns hafa sveitarfélög í landinu, Reykjavík og hugsanlega Fjarðabyggð, þegar stigið ákveðin skref í þessa veru. Það var tekinn upp gjaldfrjáls leikskóli þrjá tíma á dag fyrir fimm ára börn í Reykjavík á síðasta hausti, í samræmi við yfirlýsingar sem gefnar voru í síðustu kosningum. Væntanlega verður haldið áfram með einhverjum hætti á þeirri braut þó að auðvitað sé ekki hægt, einhliða af hálfu sveitarfélaganna, hvorki Reykjavíkurborgar né annarra, að fara út í svo viðamikla aðgerð og kostnaðarsama án þess að gera um það samkomulag og sátt milli ríkis og sveitarfélaga.

Ég lít svo á að þetta sé eðlilegt verkefni að fara út í núna og það taki í raun við af því geysilega stóra verkefni sem sveitarfélögin hafa borið hitann og þungann af, sem er uppbygging leikskóla í landinu á undanförnum tíu árum. Gríðarlegt átak hefur verið í uppbyggingu leikskólaþjónustu í landinu og nú er svo komið að um 71% allra barna á aldrinum 0–5 ára eru í leikskólum á Íslandi. Þetta hlutfall var fyrir tíu árum um 40% og af þessu sést hvílíku grettistaki hefur verið lyft. Grettistakinu var ekki síst lyft hér í Reykjavík þegar tekin var um það pólitísk ákvörðun árið1994 að gera þetta að forgangsmáli. Það var bara þannig að Reykjavík haltraði á eftir flestum öðrum sveitarfélögum í þessu efni.

Núna er staðan á Íslandi þannig að hlutfall barna sem nýtur þjónustu leikskólanna er hærra en víðast hvar annars staðar á Norðurlöndum. Við sem vorum á eftir, höltruðum á eftir, erum yfirleitt komin fram úr öðrum Norðurlöndum hvað þessa þjónustu varðar. Þetta var átakið sem við þurftum að fara í og gera. Auðvitað kostar það foreldra talsvert mikið að vera með börn á leikskólum og nú tel ég komið að næsta skrefi, þ.e. að bjóða upp á þessa þjónustu gjaldfrjálst ákveðinn tíma dagsins og það þurfi að gerast í ákveðnum áföngum. Eins og hér hefur komið fram er þetta gríðarlega umfangsmikið verkefni og kostnaðarsamt og þarf að taka á því sameiginlega milli ríkis og sveitarfélaga.

Ég er þeirrar skoðunar að samfélagið hljóti að fjárfesta mun meira í börnum á komandi árum en gert hefur verið og að fjárfesta þurfi verulega í aðbúnaði og stuðningi við fjölskyldurnar í landinu. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að sú streita og sú mikla vinna sem fylgir ungu fólki sem er að koma sér upp húsnæði, ala upp börnin sín, borga af námslánunum sínum og hvað þetta allt saman er kemur niður á fjölskyldunum í landinu og hefur áhrif á fjölskyldurnar, hefur áhrif á hjónaskilnaði, hefur áhrif á félagslega stöðu þeirra og við þurfum auðvitað að taka á þessum málum. Þetta hefur líka þau áhrif að fólk á færri börn en það sjálft kysi ef það fengi meiru um þessa hluti ráðið.

Það er dálítið athyglisvert að ef við lítum aftur til ársins 1965 voru fjögur fædd börn á hverja konu á barneignaaldri hér á landi. Árið 1995 var þetta komið niður í 2,1 og árið 2001 var þetta komið niður í 1,9. Við sjáum að þróunin er mjög hröð, einfaldlega vegna þess að álagið sem fylgir því að eiga mörg börn og vera á vinnumarkaði er of mikið og fórnarkostnaðurinn er of mikill, ekki síst fyrir konur. Við skulum horfast í augu við það að konur greiða ákveðið gjald fyrir að eiga börn og vera á vinnumarkaði á sama tíma. Giftar konur, mæður eru að jafnaði með lægri laun en konur sem ekki eiga börn. Fjölskyldufólk með ung börn vinnur í heildina einum til tveimur klukkustundum lengur á hverjum degi en barnlausir jafnaldrar þeirra.

Þetta eru einfaldlega þær staðreyndir sem við okkur blasa og segja okkur að álagið á ungt barnafólk í okkar samfélagi er of mikið og við þurfum með einhverjum hætti að reyna að létta undir með því. Það er hægt að gera m.a. með því að draga úr þeim tilkostnaði sem fólk hefur af leikskólaþjónustu en það er líka hægt að gera með því að atvinnulífið taki meira mið af barnafólki. Það er því miður þannig í okkar samfélagi að gerð er krafa um að fjölskyldurnar lagi sig að atvinnulífinu en ekki að atvinnulífið lagi sig að fjölskyldunum. Það er kannski eitt af því sem mér fannst vanta upp á í þeim ágætu ræðum mörgum hverjum sem fluttar voru um áramótin af ráðamönnum þjóðarinnar sem beindu sjónum sínum að fjölskyldunni, og það er ágætt, að það var að skoða samhengi atvinnulífs og einkalífs og setja málið í það samhengi að atvinnulífið þurfi í auknum mæli að aðlaga sig þeim veruleika að fólk hefur fjölskylduábyrgð og þarf að sinna henni og það þarf að hafa bæði svigrúm til að taka þátt í atvinnulífinu og heimilislífi, umönnun og uppeldi barna.

Við þekkjum að það er yfirleitt kvartað mjög mikið vegna sumarleyfa á leikskólum, það er kvartað undan vetrarfríi í skólum og það er kvartað undan starfsleyfum kennara af hálfu atvinnulífsins. Ég held að þetta byggi á misskilningi, þetta byggi ekki á neinum illvilja eða neinu slíku heldur einfaldlega á því að menn átta sig ekki á mikilvægi þess fyrir atvinnulífið og til þess að atvinnulífið geti haft gott starfsfólk sem gefur sig heils hugar í vinnu sína þurfi það að laga sig að þessum veruleika. Ég held raunar að það sé bara tímaspursmál hvenær menn átta sig á því en þetta þarf að gerast og þetta þurfa ráðamenn þjóðarinnar líka að tala um þegar þeir víkja tali sínu að fjölskyldunum og ábyrgð þeirra sem þar eru.

Virðulegi forseti. Ég styð heils hugar þessa þingsályktunartillögu efnislega og vona að hún fái góðan framgang í þinginu.