131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[18:09]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vekur samt sem áður athygli að það eru ekki liðnir nema tveir mánuðir síðan hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir stóð að því að hækka leikskólagjöld í Reykjavík um allt að 42%. Hækkun sem stúdentar við Háskóla Íslands mótmæltu og það sama gerði stjórn Ungra jafnaðarmanna. Í fréttatilkynningu sem stjórnin sendi frá sér þann 10. nóvember sl. var hv. þingmaður og aðrir hv. þingmenn Samfylkingarinnar og borgarfulltrúar minntir á samþykkt landsfundar Samfylkingarinnar sem kvað m.a. á um að lækka frekar gjöldin en hækka þau. Þrátt fyrir það stendur hv. þingmaður fyrir því hinum megin við götuna að hækka leikskólagjöld á ungt fólk í Reykjavík en kemur síðan inn á Alþingi og lýsir efnislegum stuðningi við tillögu sem mælir fyrir um breytingar í þveröfuga átt. Ég hlýt því að spyrja: Hvað breyttist í afstöðu hv. þingmanns til málsins? Hv. þingmaður svaraði ekki þeirri spurningu minni.

Ég verð að segja að málflutningur eins og sá sem hér er boðið upp á er með mjög miklum ólíkindum og það er holur hljómur í þeim stuðningi sem fram kemur hjá hv. þingmanni við þessa þingsályktunartillögu þegar því er lýst yfir að efnislega vanti ekkert upp á stuðninginn frá hv. þingmanni sem sjálf hefur staðið að því fyrir stuttu að hækka þessi tilteknu gjöld á ungt fólk í Reykjavík.

Ég vonast til þess að ummæli hv. þingmanns leiði til þess að hún berjist þá fyrir lækkun leikskólagjalda í Reykjavík í framtíðinni.