131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[18:46]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þm. Jónína Bjartmarz tala mjög ógreinilega. Hún studdi viljann en samt studdi hún ekki tillöguna, ef ég skildi hana rétt, og hún studdi að þetta væri gert í áföngum en það er einmitt það sem tillagan gengur út á. Það væri mjög gott fyrir umræðuna að hv. þingmaður útskýrði nánar hvað hún styður í raun og veru.

Ég tel um mjög þarft mál að ræða, sérstaklega í ljósi þess að það hefur orðið mikill mismunur á launum og tekjudreifing hefur orðið mikil og misskipting í samfélaginu. Þess vegna tel ég að Framsóknarflokkurinn ætti einmitt að fagna málinu af meiri ákafa en ekki tipla á þessu eins og hv. þingmaður gerði.