131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[18:47]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Það gleður mig sérstaklega að sjá hv. þm. Sigurjón Þórðarson aftur í þingsalnum. Í stórum hluta af ræðu hans áðan var hann alveg í öngum sínum yfir því að hæstv. forsætisráðherra væri ekki viðstaddur ágæta ræðu hans. Mér finnst það alltaf heldur ósmekklegt þegar það liggur fyrir hvaða þingmenn eru með fjarvistarleyfi og eru ekki á landinu.

Svo að ég endurtaki það, af því að hv. þingmaður er kominn í þingsalinn, þá styð ég viljann sem er á bak við að létta undir með barnafólki. Ég styð hins vegar ekki sem forgangsmál til að létta undir með barnafólki að leikskólinn fyrir börn frá sex mánaða aldri sé gerður gjaldfrjáls. Ég vil að létt verði undir með barnafólki á annan hátt út frá hagsmunum barnanna, hagsmunum þeirra af samvistum við foreldra sína og út frá því sjónarmiði að foreldrar eiga að geta valið hvernig gæslu og menntun barna þeirra er háttað. Ég styð hins vegar að það sé gert með elsta árganginn í leikskólanum.

Herra forseti. Að þessu sögðu tel ég að hv. þingmaður sé ekki í nokkrum vafa um hver vilji minni er í málinu.