131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[18:55]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jónínu Bjartmarz fyrir hennar málefnalega innlegg í umræðuna og ég held að það sýni ágætlega að það er vaxandi vilji í flestum ef ekki öllum stjórnmálaflokkum fyrir að taka skref í þessu efni. Hún kaus að horfa sérstaklega til síðasta ársins í leikskólanum og auðvitað nærtækt að það sé fyrsta skrefið eins og hefur verið hjá Reykjavíkurborg. Ég verð þó að lýsa mig ósammála því að það eigi að horfa á það þannig að við lengjum grunnskólann þangað niður við styttingu framhaldsskólans. Þó að það sé kannski eðlilegt að horfa á það að flytja skólaskylduna niður um eitt ár þegar framhaldsskólinn verður styttur, ef hann verður styttur, þá held ég að við eigum ekki að breyta síðasta árinu í leikskóla í grunnskólastarf. Leikskólastarfið er auðvitað ólíkt grunnskólastarfinu í þeirri aðferð sem leikskólinn beitir, sem er að kenna í gegnum leik. Ég held að það sé mjög mikilvæg nálgun og aðferðafræði við að kenna börnum á þessum mikilvæga aldri því að börn þroskast auðvitað mest á fyrstu fimm árum ævinnar.

Ég held að að mörgu leyti sé það ákjósanlegt fyrir fjöldamörg börn á þessum aldri einmitt að hefja skólagöngu sína í leik og sem leik því að við vitum, kannski sérstaklega um þau börn sem eiga undir högg að sækja og eru í áhættuhópi, að þegar þau eru að hefja skólanám sitt eru þau kannski ekki mjög sterk á bókina. Þess vegna er að mörgu leyti jákvæðari og betri fyrsta reynsla af skipulögðu skólastarfi og skólaskyldu að koma í leikskólann í kennslu í gegnum leik sem þar fer fram og það frábæra og góða starf sem þar er unnið.

Ég segi þetta með skólaskylduna að um leið og við ræðum það hvort við ætlum að láta milljarða af opinberum fjármunum í að veita þessa þjónustu endurgjaldslaust hljótum við auðvitað að ræða um það hvort við verðum ekki líka að gera það að skyldu. Ég held að það sé mikilvægt vegna þess að það sem er ástæða til að hafa áhyggjur af er að þau börn sem mest þurfi á þjónustu leikskólans að halda fari á mis við hana, til að mynda eins og við höfum umræður um í nágrannalöndum okkar, börn innflytjenda. Við erum í vaxandi mæli að fá inn fólk sem hefur annað tungumál en íslensku sem fyrsta mál, málþroski okkar er mestur og bestur á fyrstu árum ævinnar og það er mjög mikilvægt að nýir Íslendingar aðlagist vel og fljótt og ekki síst börnin sem eiga mörg eftir að eyða hér lífinu öllu. Þess vegna er mjög mikilvægt að fá þau börn í leikskólann eins fljótt og kostur er til að stuðla að aðlögun, íslenskunámi og öðru þess háttar.

Ég nefni líka börn fólks sem er ekki á vinnumarkaði, fólks sem er atvinnulaust, býr við sjúkdóma eða er á örorku og þannig félagslega illa statt og börnin þar af leiðandi mörg í veikri stöðu félagslega. Þeim er líka mjög mikilvægt að fá þann góða stuðning og njóta þeirrar góðu starfsemi sem er í leikskólunum. Ég held þess vegna að þau 10% barna á þessum aldri sem eru ekki að fá þjónustuna séu því miður í mörgum tilfellum þau börn sem mikilvægast er fyrir okkur sem samfélag að fái stuðning, menntun og fræðslu í gegnum leik til þess að styðja þau og styrkja sem einstaklinga og þroska á þessum mikilvægu árum þannig að þau séu betur í stakk búin til þess að takast á við oft erfiða lífsbaráttu.

Við verðum að muna að því miður er það þannig þrátt fyrir mikla velsæld í okkar samfélagi að fátækt í okkar ríka samfélagi hefur því miður farið vaxandi og við þurfum alveg sérstaklega að hlúa í því sambandi að þeim börnum sem hafa orðið fyrir barðinu á þeirri þróun. Það held ég að við getum vel gert m.a. með því að taka þau mikilvægu skref í leikskólanum sem hér hafa verið til umræðu.