131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[13:32]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Undir þetta mál sem er þriðja kynslóð farsíma skrifuðu fulltrúar stjórnarandstöðunnar með fyrirvara. Sá fyrirvari snýr að því sem síðan birtist í breytingartillögu sem flutt var af þeim sem hér stendur og hv. þm. Kristjáni Möller og Jóni Bjarnasyni.

Fyrirvari okkar snýr að því að við teljum að ekki eigi að bjóða þessi leyfi út fyrr en í fyrsta lagi árið 2007. Í annan stað teljum við að dreifingarumfangið um landið eigi að ná a.m.k. 75 prósentum þegar leitað er eftir tilboðum og í þriðja lagi að notendur annarra kerfa Símans, svo sem GSM, NMT eða hins hefðbundna símabúnaðar, verði ekki látnir greiða kostnað af því að taka upp þriðju kynslóð farsíma. Þetta eru þeir fyrirvarar sem við höfum gert og lagt fram breytingartillögu um og ég geri ráð fyrir því að ef þessar skynsamlegu breytingartillögur verði felldar munum við sitja hjá við afgreiðslu málsins.