131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[13:45]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er á ferðinni enn eitt dæmið um kolranga forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Hér eru ríkisstjórnarflokkarnir að afnema mikilvæg réttindi sem almenningur hefur haft samkvæmt lögum. Þingmeirihluti er að þrengja rétt almennings til gjafsóknar þannig að eftir samþykkt þessa frumvarps getur fólk ekki fengið gjafsókn þegar um er að ræða mál sem hafa verulega almenna þýðingu eða varða verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjenda. Þau mál sem hafa hingað til fengið gjafsókn samkvæmt þeim lið einkamálalaga sem hér er verið að afnema eru iðulega mál sem eru sótt gegn ríkisvaldinu. Hér má nefna dómsmál sem fjalla um mannréttindi, umhverfismál, læknamistök, eignarréttindi, skaðabætur o.s.frv. Ríkisvaldið er því að þrengja rétt almennings á gjafsóknarmálum sem eru iðulega sótt gegn því sjálfu.

Ég vona að þetta fari ekki fram hjá almenningi.

Tilgangurinn með þessu frumvarpi er sagður vera sparnaður en þrátt fyrir það mun þetta frumvarp einungis koma í veg fyrir lítinn hluta heildarfjölda gjafsóknarmála, þ.e. um 10% þeirra. Hins vegar mun frumvarpið koma í veg fyrir mjög mikilvægan hluta gjafsóknarmála. Sparnaðurinn verður því hverfandi og í ljósi þeirra mikilvægu réttinda sem þingmeirihlutinn er að afnema hér er ljóst að verið er að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Þingmenn Samfylkingarinnar munu því greiða atkvæði gegn 2. gr. þessa frumvarps sem lýtur að afnámi þessara mikilvægu réttinda en sitja hjá við aðrar greinar þess.