131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[13:47]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar hvað þetta mál varðar því að hér er verið að leggja til niðurfellingu á því sem alþingismenn á sínum tíma kölluðu verulegar réttarbætur til almennings. Ég held að það sé veruleg ástæða til þess að við vekjum athygli stjórnarþingmanna á því úr þessum stóli hvað hér er verið að gera. Það er verið að leggja til að felld verði niður heimild til að veita gjafsókn á grundvelli þess að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjenda. Hæstv. dómsmálaráðherra ver breytinguna með því að hér sé verið að sporna við útgjaldaaukningu vegna gjafsóknarmála en í umræðunni hefur það verið dregið fram að sparnaðurinn sem af þessum breytingum mundi hljótast, ef einhver verður, verður í hæsta lagi um 15 millj. kr. á ári. Það er því verulega léttvæg röksemd þegar þess er gætt að niðurfelling heimildarinnar mun bitna á afar ósanngjarnan hátt á einstaklingum sem, nota bene, hafa fullt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar, t.d. í málum gagnvart ríkinu.

Ein tegund mála sem ekki yrði lengur hægt að heimila gjafvörn fyrir væri mál þar sem ríkið stefnir einstaklingum, t.d. af handahófi. Ríkisskattstjóri þarf stöku sinnum að taka út einn einstakling og lögsækja eða stefna í svokölluðum fordæmismálum. Slík mál gætu ekki lengur notið gjafsóknar, ekki heldur skaðabótamál þar sem verið er að heimta bætur fyrir verulega örorku þegar örorka er mikil, mál þar sem aflahæfi fólks er skert og það þarf að fara í skaðabótamál við ríkið þar sem tekist er á um sök, lóðamál þar sem deilur um lóðarétt, oftar en ekki við opinbera aðila, eru til umfjöllunar, sveitarstjórnarmál, virkjanamál og síðast en ekki síst mál sem lúta úrskurðum sem ráðherrar hafa sjálfir gefið í álitamálum. Með öðrum orðum er með þessari breytingu verið að koma í veg fyrir að einstaklingar geti á grundvelli gjafsóknar lögsótt ráðherra ríkisstjórnarinnar í álitamálum sem hafa almenna þýðingu.

Hæstv. forseti. Fyrir hönd þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mótmæli ég þeirri breytingu sem lögð er til á 2. gr. frumvarpsins sem skerðingu á mannréttindum. Til að undirstrika mótmæli okkar munum við greiða atkvæði gegn breytingunni en sitja hjá við málið að öðru leyti.