131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[13:54]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og fiskvinnslu. Þetta mál hefur komið áður til umræðu í Alþingi og er því vafalaust þeim sem áhuga hafa á þessu málefni nokkuð kunnugt. Rétt er að geta þess að við flytjum þetta tveir þingmenn, sá sem hér stendur og hv. þm. Jóhann Ársælsson. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa þriggja manna nefnd sem fái það verkefni að semja frumvarp til laga um fjárhagslegan aðskilnað milli reksturs útgerðar annars vegar og fiskvinnslu í landi hins vegar. Frumvarpið verði lagt fram á þessu þingi og að því stefnt að lögin taki gildi 1. janúar 2006.

Lögunum verði ætlað að skapa skilyrði til eðlilegrar verðmyndunar á öllum óunnum fiski á markaði og stuðla að heilbrigðum og gegnsæjum viðskiptaháttum í fiskviðskiptum, og koma þannig á eðlilegum samkeppnisskilyrðum á því sviði.“

Í greinargerð með málinu segir svo:

Lagalegar forsendur.

a. Kröfur EES-samnings um virka samkeppni á markaði.

Núgildandi lög og reglur fela í sér að gerðar eru miklar kröfur um siðareglur í viðskiptum, virka samkeppni á markaði og gegnsæi hans. Lögleiðing samkeppnislaga, nr. 8/1993, markaði tímamót á þessu sviði. Einnig má vísa til þess að Ísland er bundið af samkeppnisreglum ESB vegna aðildar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og hefur sú skuldbinding víðtæk áhrif í íslenskum lögum og reglum. Sem dæmi um viðbrögð löggjafans má nefna þingsályktun um setningu siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði sem samþykkt var á 125. löggjafarþingi, en þar voru hafðar til hliðsjónar reglur framkvæmdastjórnar ESB.

Í greinargerð þeirrar þingsályktunartillögu segir m.a.: „Markmið reglnanna er að gefa viðmið fyrir siðlegt athæfi alls staðar á því svæði sem þær ná til, greiða fyrir virkri starfsemi verðbréfamarkaða og gæta almannahagsmuna.“ Á öðrum stað segir: „Til þess að hann [þ.e. verðbréfamarkaðurinn] megi þróast eðlilega allri þjóðinni til hagsbóta er nauðsynlegt að hlúa að heilbrigðum og gagnsæjum viðskiptaháttum á öllum fjármagnsmarkaðinum.“

Fullvíst má telja að viðskiptalegt umhverfi verslunar með óunninn fisk hér á landi fullnægi ekki settum kröfum EES-samningsins um virka samkeppni.

Næsti liður greinargerðarinnar fjallar stuttlega um íslensk samkeppnislög og þar segir:

Þingsályktunartillaga þessi á sér meginstoðir í lögbundnum markmiðum gildandi samkeppnislaga og er ætlað að þjóna þeim, en í 1. gr. laganna segir:

„Lög þessi hafa það markmið að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Markmiði þessu skal náð með því að:

a. vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,

b. vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum, skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,

c. auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.“

Einnig má vísa til ýmissa annarra ákvæða samkeppnislaganna, svo sem 10. og 11. gr., og að auki er vert að benda á ákvæði 14. gr. en þar segir: „Þegar um er að ræða opinbert fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar að einhverju leyti í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar er samkeppnisráði heimilt að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað, annars vegar á milli þess hluta rekstrar fyrirtækisins sem nýtur einkaleyfis eða verndar og hins vegar þess hluta rekstrar sem er í frjálsri samkeppni við aðra aðila. Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfis- eða verndaðri starfsemi.“

Sé fullrar sanngirni gætt verður ekki annað séð en að framangreind ákvæði 14. gr. eigi fyllilega við um þann mikla aðstöðumun sem skapast milli útgerðarfyrirtækja sem árlega fá úthlutað aflaheimildum og njóta þannig verndar með slíkum stjórnvaldsbundnum leyfum og hins vegar fiskvinnslufyrirtækja sem engrar slíkrar verndar njóta en starfa í óheftri samkeppni.“

Hæstv. forseti. Ef skoðuð eru viðskipti á fiskmarkaði í nóvember sl. kemur í ljós að þegar selt er beint til fiskkaupenda, þ.e. í beinum viðskiptum sem oftast nær eiga sér stað milli fyrirtækja sem eru bæði með útgerð og fiskvinnslu og hafa þannig ákvæði að þau geta verðlagt aflann sjálf með sérstökum samningum við sjómenn, kemur í ljós að slægður þorskur með haus er seldur að meðaltali á 117 kr. kílóið í nóvembermánuði 2004. Hins vegar er hann seldur á rúmar 178 kr. þegar selt er á innlendum fiskmörkuðum. Þarna er mismunur upp á rúmlega 61 kr. hvert kíló. Ég held að það viti allir sem vilja vita að beinu viðskiptin sem annars vegar fara fram beint við þau skip sem útgerðir gera út og hins vegar eru í eignarhaldi þeirra fyrirtækja sem jafnframt eru í fiskvinnslu eða útgerðarfélaga sem eru skráð á kennitölur í eign viðkomandi yfirfyrirtækis eða fiskvinnslufyrirtækis er verðið þar yfirleitt talsvert annað, og verulegur munur á miðað við það sem selt er á íslenskum fiskmörkuðum. Þeir sem versla á íslensku fiskmörkuðunum og reka fiskvinnslur sínar á þeim fiski kaupa hann að meðaltali í nóvember sl. á 61 kr. hærra verði en gerist og gengur í beinu viðskiptunum. Þar til viðbótar eru svo í beinu viðskiptunum viðskipti þar sem þeir sem hafa fengið úthlutað aflaheimildum gera samninga við aðrar útgerðir sem kvótalitlar eru eða kvótalausar og leggja upp hjá fiskvinnslufyrirtækjunum. Þar af leiðandi er kvótinn notaður til þess að draga til sín viðskipti.

Það er vissulega hægt að halda því fram eins og það sem ég vitnaði til hér áðan í samkeppnislögunum en þar sagði, svo að ég endurtaki það:

„Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfis- eða verndaðri starfsemi.“

Ég held að það fari ekkert á milli mála, og það vita allir sem vilja vita, að þeir sem hafa fengið úthlutað aflaheimildum á Íslandsmiðum og eru jafnframt með fiskvinnslu nýta sér aflaréttinn, m.a. í verðmyndunarþættinum. Þar af leiðandi eru viðskipti með verulega öðrum hætti en eðlilegt gæti talist. Ég hef líka leyft mér að halda því fram, virðulegur forseti, að ég hefði enga trú á því að þeir aðilar sem lengi hafa verið í útgerð hér á landi, árum og áratugum saman, og þá á ég við stærstu og öflugustu fyrirtæki landsins, ræði ekki saman um rekstrarforsendur sínar og notkun á þeim réttindum sem þeim hafa verið fengin.

Ég hygg að menn geti spurt sig að því hvort það sé svo að gömul völd í sjávarútvegi, gömul eignastaða í sjávarútvegi, séu einhvern veginn í svipuðu fari og hin gömlu völd olíufélaganna sem Samkeppnisstofnun hefur verið að skoða. Ég ætla ekki að fullyrða um það en mér finnst mjög margt benda til þess að þannig liggi málið. Eitt er víst, þau fyrirtæki sem kaupa allan sinn fisk á fiskmarkaði á miklu hærra meðalverði en er í beinu viðskiptunum vinna jafnframt úr þessum fiski og selja hann inn á dýrustu markaði sem við finnum í nágrannalöndum okkar. Það þurfa auðvitað að vera mjög vel rekin fyrirtæki að keppa á þessum fiskmarkaði, jafnvel við þá sem eiga nægar aflaheimildir og geta notað þær í þessum viðskiptum. Það er alveg ljóst að sum fyrirtæki í sjávarútvegi sem reka eigin fiskvinnslu og útgerð og kaupa fiskinn af sjálfum sér eru að seilast inn á þá markaði og inn í þá viðskiptasamninga sem fiskvinnslur án útgerðar hafa samið við á undanförnum árum og selt.

Það er ekkert launungarmál, og vita það allir sem vilja vita, að sú mikla þróun og verðmætisaukning sem orðið hefur í ferskum útflutningi á unnum fiski frá Íslandi hefur fært okkur verulegan verðmætisauka fyrir þjóðina og verulega hærra skilaverð upp úr sjó fyrir unninn fisk á Íslandi. Þess vegna er meira en kominn tími á að það sé tekið á þessum málum. Þess vegna er það auðvitað sem við flytjum þetta mál hér aftur og aftur.

Því miður er það svo að flokkar sem kenna sig við óhefta samkeppni, eins og Sjálfstæðisflokkurinn, hafa staðið á móti þessu máli árum saman. Það er algjörlega ljóst að mínu viti að ef hér væri innleiddur rekstrarlegur aðskilnaður fiskvinnslu og útgerðar, fjárhagslegur aðskilnaður, yrði það til mikilla bóta til þess að sjá hvernig viðskiptin gerast á eyrinni, og að ekki væri hægt að blanda saman í bókhaldi og rekstri fyrirtækja þeim verðmætum sem annars vegar eru aflaheimildir, óveiddur fiskur í sjó við Ísland, og hins vegar fiskkaup á fiskmarkaði. Það held ég að væri mjög þarft verk að stuðla að.

Hér segir áfram í greinargerð með tillögunni:

Sé fullrar sanngirni gætt verður ekki annað séð en að framangreind ákvæði 14. gr. eigi fyllilega við um þann mikla aðstöðumun sem skapast milli útgerðarfyrirtækja sem árlega fá úthlutað aflaheimildum og njóta þannig verndar með slíkum stjórnvaldsbundnum leyfum og hins vegar fiskvinnslufyrirtækja sem engrar slíkrar verndar njóta en starfa í óheftri samkeppni á markaði.

Þetta eru jú fyrirtæki sem eru í harðri samkeppni á erlendum markaði að bjóða vöru sína og þetta hlýtur að teljast samkeppnisleg mismunun, hæstv. forseti. Þessi samkeppnislega mismunun hefur sömu afleiðingar og samkeppnislegt samráð um verð. Fiskiðnaðurinn er í alþjóðlegri samkeppni á erlendum mörkuðum og þær mismunandi leikreglur sem við búum fiskiðnaðinum hér á landi verða auðvitað til þess að menn sitja ekki við sama borð. Ég tel að það sé verið að vinna gegn hagsmunum íslensku þjóðarinnar með því að hafa þetta fyrirkomulag áfram eins og það er og það yrði þjóðinni til mikils hagræðis og mikils verðmætisauka í framtíðinni, fyrir utan það að lagfæra hér óeðlilegt viðskiptakerfi, ef stigið væri það skref sem þessi þingsályktunartillaga gengur út á.

Það er fjöldamargt annað, virðulegi forseti, sem ég vildi koma inn á en mun gera það í seinni ræðu minni. Ég vona að umræður um þetta mál verði efnislegar. Nóg er efnið. Hér er til skýrsla, „Sjávarútvegsstefna — breytt áhersla er nauðsyn“, frá Samtökum fiskvinnslu án útgerðar. Það er til skýrsla hér um aukið verðmæti í sjávarútvegi, fullt af gögnum sem segja að við getum búið til meiri virðisauka í sjávarútvegi.