131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[14:09]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og fiskvinnslu. Það eru nokkrar af skoðunum okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu máli sem ég vildi hér koma á framfæri.

Í fyrsta lagi er til að taka að fjöldi fiskvinnslna hér, mikilvægra fiskvinnslna, er starfandi án þess að hafa útgerð og án þess að hafa fiskveiðiheimildir til að byggja rekstur sinn á. Þessi vinnsla er orðin ábyrg fyrir stórum hluta fiskvinnslu í landinu og ekki hvað síst þeirri vinnslu þar sem unnin er sérvara, handunnin vara eða á einn eða annan hátt eru unnar jafnvel dýrari vörur en unnar eru af hinum stærri útgerðum og fiskvinnslustöðvum. Þýðing þessara fiskvinnslustöðva er gríðarlega mikil í íslenskum sjávarútvegi.

Við í sjávarútvegsnefnd vorum á ferð um Suðurnes fyrir skömmu og heimsóttum þar vinnslur sem voru án fiskveiðiheimilda og án þess að eiga útgerð. Það var virkilega fróðlegt að sjá hvernig hágæðavara var unnin þar af miklum metnaði og kappi, hágæðafiskur til útflutnings. Einmitt þar var lögð gríðarleg áhersla á það við okkur í sjávarútvegsnefnd hversu mikilvægt það væri að fiskvinnslurnar ættu samkeppnishæfan aðgang að fiski á mörkuðum. Það sem sló mig einna mest var hversu mikið magn af fiski er flutt út í gámum án þess að mega koma inn á íslenska fiskmarkaði, er flutt út óunnið í gámum til vinnslu erlendis án þess að íslenskar fiskvinnslur geti komið þar að og boðið í.

Við fengum minnisblað frá þessum aðilum, Samtökum fiskvinnslu án útgerðar á Íslandsmarkaði og Fiskmarkaði Suðurnesja, sem ég ætla að leyfa mér hér að vitna til, með leyfi forseta:

„Það að íslenskum fiskkaupendum skuli gert það ómögulegt að bjóða í þann fisk sem sendur er á erlenda fiskmarkaði er ótrúlegt og óskiljanlegt. Með hinu fullkomna uppboðskerfi Íslandsmarkaðar geta erlendir aðilar boðið í fiskinn í samkeppni við íslensk fiskvinnslufyrirtæki þannig að á það reyni hér heima áður en fiskur fer í útflutning hver er hæstbjóðandi hverju sinni. Þá mundi þetta fyrirkomulag, sem er auðvitað hið eina eðlilega, styrkja mjög starfsemi íslenskra fiskmarkaða þar sem þeir fengju verulegar tekjur af umsýslu og sölu á umræddum fiski. Krafa íslenskra fiskkaupenda og fiskmarkaða er því aðeins sú að þeir verði ekki útilokaðir frá samkeppni eins og nú er, heldur verði allur óunninn fiskur seldur á Íslandi.“

Þá er ítrekað líka í þessum minnispunktum sem þeir létu okkur hafa, með leyfi forseta:

„Þá er einkennileg sú leynd sem hvílir yfir sölum erlendis. Innlendum fiskmörkuðum er uppálagt að birta allar upplýsingar daglega, hins vegar birtast verð á erlendum mörkuðum viku síðar þó svo að reglugerð kveði á um annað. Þá er rétt að benda á að vaxandi hluti afla sem fer til sölu á erlendum uppboðsmörkuðum fer aldrei á uppboð, heldur er seldur beint sem raunar er einnig andstætt reglum.“

Mér finnst þetta vera grafalvarlegt mál, herra forseti, og krefst þess í rauninni að á þessu máli verði tekið hér. Við höfum rætt það undanfarin ár hversu siðlaust það er að flytja utan í svo miklu magni fisk í gámum, óunninn fisk, án þess að íslensk fiskvinnsla geti fengið að bjóða í hana í samkeppni við hina erlendu aðila og án þess að nokkuð hafi verið að gert. Undanfarið hefur líka þessi útflutningur verið að aukast. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar jókst útflutningur í gámum á fyrstu tíu mánuðum ársins 2004, óunninn fiskur í gámum sem ekki fær að koma inn á markaði hér, um 65%.

Mér finnst þetta grafalvarlegt. Fiskvinnsla á Íslandi er í harðri samkeppni við erfitt gengi og lágt kaup erlendis en síðan þarf hún líka að búa við skerta samkeppnisstöðu. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þessari aukningu. Ég hef séð það í tölum frá Hagstofunni að útflutningur í gámum nam á árinu 2003, janúar til október, 3.356 millj. kr., en á fyrstu 10 mánuðum ársins 2004 eru það 5.161 millj. kr., eða nærri 2 milljarða kr. meiri útflutningur á árinu 2004 en á árinu 2003, á gámafiski sem íslenskar fiskvinnslur fá ekki tækifæri til að bjóða í.

Ég ítreka að mér finnst þetta fullkomið siðleysi. Það má vel vera að réttlætanlegt sé að flytja þennan fisk út í smáum stíl, að útgerðir þurfi að senda óunninn fisk til viðskiptavina sinna sem hluta af einhverjum heildarviðskiptum. En ég get ekki séð að nokkur skynsamleg rök séu fyrir útflutningi á svo gríðarlegu magni sem hér um ræðir. Þetta ber að stöðva nema þá með fullkomnum leyfisveittum undantekningum.

Varðandi þessa tillögu þá vil ég gjalda varhuga við því að algerlega sé skilið á milli útgerðar og vinnslu en að útgerðir sem ekki stunda eigin vinnslu geti verið skyldar til að senda fisk sinn á markað þannig að hægt sé að nálgast þann fisk á samkeppnishæfan hátt. Vel má hugsa sér að einhver hluti af fiski á vegum útgerða sem eru með fiskvinnslu fari á markað en stærsta málið sem við stöndum frammi fyrir finnst mér að stöðva útflutning á gámafiski sem íslensk fiskvinnsla fær ekki tækifæri til að bjóða í. Það finnst mér vera mál númer eitt.