131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[14:17]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í lok ræðu sinnar sagði hv. þingmaður að hann gyldi varhuga við því að skilið yrði á milli útgerðar og fiskvinnslu. Þá geri ég ráð fyrir að hann sé að tala um þá tillögu sem hér liggur fyrir en hún snýst um að fjárhagslegur aðskilnaður verði í rekstri útgerðar og fiskvinnslu. Ég bið hv. þingmann að útskýra betur hvers vegna hann er á móti því að sá fjárhagslegi aðskilnaður verði? Sú aðgreining þýðir ekki að sömu fyrirtækin megi ekki eiga bæði útgerð og fiskvinnslu heldur sé algerlega skýrt að fjárhagurinn sé aðskilinn. Ég ætla ekki að útskýra það nánar í þessu andsvari eða rökstyðja en ég vil fá betri útskýringar hjá hv. þingmanni á því hvers vegna hann er á móti þessu.