131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[14:41]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég gæti víða komið við í ræðu hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar en hún bar nú fyrst og fremst keim fyrirgreiðslupólitíkur eins og við höfum þekkt í sjávarútvegi á Íslandi síðustu tíu, tuttugu ár.

Það er alvarleg mismunun í íslenskum sjávarútvegi í dag, hvort sem um er að ræða útgerð eða fiskvinnslu. Hv. þingmaður vék að því í máli sínu að markaðirnir þurfi ákveðið öryggi er varðar framboð birgja sinna á fiski. Það er ekki verið að leggja til að leggja niður veiðar á Íslandi, svo það sé alveg á hreinu.

Í annan stað talar hann um stöðnun. Við skulum athuga hvernig landið liggur í rauninni á Íslandi í dag. Við erum annars vegar með fyrirtæki sem kenna sig við fiskvinnslu án útgerðar, svo erum við hins vegar með fyrirtæki sem eru í fiskvinnslu en einnig í útgerð. Það vill svo til, herra forseti, að fyrirtækin sem hafa verið að starfa í fiskvinnslu án útgerðar eru fyrirtækin sem hafa þurft af kappi og krafti að búa til markaði á erlendri grundu í þeirri hörðu samkeppni sem þau búa við. Eins og hv. þingmaður kom inn á í máli sínu er hráefnið nefnilega stærsti útgjaldaliðurinn í rekstri þessara fyrirtækja. Hann er mishár eftir tegundum fyrirtækja. Menn hafa viljað meina að hann sé jafnvel upp í 70–80% hjá fiskvinnslum án útgerða, en allt niður í 30–40% hjá fiskvinnslum með útgerð.

Einmitt þarna liggur stöðnunin í íslenskum sjávarútvegi. Verið er að meina ungu, íslensku fólki að koma inn í fiskvinnslu með eðlilegum hætti. Það er algjört grundvallaratriði í stórum iðngreinum hverrar þjóðar að bjóða upp í nýliðun í stærstu atvinnugreinum sínum. Sú hefur ekki verið raunin, hvorki í útgerð né fiskvinnslu á Íslandi. Sem skýrir kannski, virðulegi forseti, þá stöðnun sem hefur verið í fiskvinnslu á Íslandi um 20 ára skeið. Við erum að gera nákvæmlega sömu hlutina um borð í frystitogurum landsins og við gerðum fyrir 20 árum (Forseti hringir.) og svo má lengi telja.