131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[14:43]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður lýsti þessu er ég fyrirgreiðslupólitíkus vegna þess að ég vil reyna að verja hagsmuni íslensks sjávarútvegs. Ég er mjög ánægður með þá nafngift. (Gripið fram í.)

Það sem hv. þingmaður var í rauninni að gefa til kynna var það sem ég varaði við áðan. Hv. þingmaður var í raun að segja að það mætti ekki hafa það fyrirkomulag að sá sem réði bæði yfir bát og vinnslu gæti með einhverjum hætti ráðstafað hráefni sínu til sinnar eigin vinnslu sér til hagsbóta til að tryggja það markaðsframboð sem hann vildi svara. Hv. þingmaður var í raun og veru að segja þetta. Þetta skil ég vel. Þetta getur vel verið sjónarmið. Ég er hins vegar mjög ósammála þessu. Þetta var ekki það sjónarmið sem kom fram fyrr í ræðunni þegar menn voru að reyna að setja þetta mál í einhvers konar dulargervi, að þetta væri bara spurning um að menn færðu bókhaldið sitt rétt, þannig að það sæist hver væri útgerðarþátturinn og hver væri fiskvinnsluþátturinn. Hv. þingmaður gekk nefnilega miklu lengra. Hann var í raun að lýsa í fáeinum orðum, á tveimur mínútum, kjarna tillögunnar sem er einmitt sá að koma í veg fyrir það að aðili sem núna í dag rekur bæði fiskvinnslu og útgerð geti gert það með þeim hætti að hann sjái til þess að útgerðarþátturinn þjóni fiskvinnsluþættinum hans. Um þetta snýst málið.

Hv. þingmaður taldi að núverandi fyrirkomulag, þ.e. fiskvinnslufyrirtæki sem á útgerð eða útgerð sem á fiskvinnslufyrirtæki, hafi leitt til stöðnunar í íslenskum sjávarútvegi. Ég er að vísu algerlega ósammála honum um að íslenskur sjávarútvegur sé staðnaður. Mér finnst allt benda til þess, allar tölur sem maður sér, allt umhverfið sem maður horfir á, heimsóknir í fyrirtækin, að það er gríðarlegur kraftur í íslenskum sjávarútvegi og ótrúlega mikil sókn á öllum sviðum, bæði tæknilega og markaðslega. Menn eru að brjóta sér leiðir inn á nýja markaði og maður hittir stöðugt fólk sem starfar á þessum sviðum, bæði í stóru fyrirtækjunum og litlu fyrirtækjunum, sem er að gera góða hluti. Ég er því alveg ósammála honum um að íslenskur sjávarútvegur hafi einhver stöðnunareinkenni.