131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[15:09]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Hér er um mjög mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir íslensku þjóðina. Það varðar frjáls viðskipti og hvort samkeppni eigi að ríkja í viðskiptum með einn helsta atvinnuveg þjóðarinnar.

Við í Frjálslynda flokknum leggjum mjög mikla áherslu á eðlilega samkeppni og að frjáls viðskipti fái að ríkja í viðskiptalífinu. Fiskvinnslur án útgerða hafa ítrekað kvartað yfir því að svo er ekki. Kvartanir hafa ekki bara komið fram hjá forsvarsmönnum í blöðum og víðar heldur hefur einnig verið kvartað við Samkeppnisstofnun. Þessi mál hafa velkst í kerfinu mánuðum og árum saman og það kemur engin niðurstaða. Það er með ólíkindum að þessi mál fái enga niðurstöðu. Það eru ekki bara mál sem varða tryggingamarkaðinn sem fá ekki niðurstöðu fyrr en eftir ár og daga, heldur er það höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar og það er auðvitað með ólíkindum. Það er orðið tímabært að menn spyrji að því hvers vegna menn fá enga niðurstöðu í þessi mál.

Annað er afar sérstakt að nú berast þær fréttir að þeir sem hafa viljað halda þessu ástandi, þ.e. að markaðslögmálin fái ekki að ríkja í þessum atvinnuvegi, m.a. Landssamband íslenskra útvegsmanna, nú berast fréttir af því að þeir séu mjög ósáttir þessa dagana yfir olíusamráðinu og krefjist jafnvel bóta vegna ólöglegs samráðs. Auðvitað skilur maður það en þeir ættu einnig að hafa skilning á því að þetta ástand, að sumir þurfi að greiða talsvert hærra verð fyrir fiskinn í húsi, er mjög óeðlilegt. Auðvitað á að gæta jafnræðis.

Mér fannst þetta vera tímamótaræður sem voru haldnar áðan. Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Jón Bjarnason, hélt mjög góða ræðu um að markaðslögmálin ættu að ríkja í þessum viðskiptum. Ég er honum sammála. Svo kom hv. þm. þingmaður Einar K. Guðfinnsson og sá alla meinbugi á því að markaðslögmálin fengju að ganga sinn gang. Það er óneitanlega mjög sérstakt. Síðan þvældi hann málinu fram og aftur um hvert raunverulegt innihald tillögunnar er. Raunverulegt innihald tillögunnar er einmitt að markaðslögmálin fái að ríkja.

Það er mjög sérstakt að t.d. formaður sjávarútvegsnefndar skuli ekki skuli vera hér og taka þátt í umræðunni því þetta er mjög mikilvægt mál eins og hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Einar K. Guðfinnsson, gaf til kynna. Auðvitað eiga þeir að vera til umræðu um þetta mjög mikilvæga mál. (Gripið fram í: Sækja hann.) (Gripið fram í: Sækja formanninn.) Já, ég hefði talið að hann ætti að sjá sóma sinn í því að vera hér og taka þátt í umræðunni og lýsa skoðun sinni á þessu mikilvæga máli.

Eins og áður segir er þetta mjög mikilvægt mál, enda er sjávarútvegurinn undirstöðuatvinnugreinin. Þess vegna væri mjög eðlilegt að varið væri miklum tíma í einmitt að ræða viðskiptaumhverfi sjávarútvegsins og þann vanda sem blasir við greininni. Það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því, það sjá allir þann vanda sem vilja sjá hann á annað borð að það vantar nýliða í atvinnugreinina. Nýliðar eru mjög mikilvægir í atvinnugreinum yfir höfuð. Ég hefði talið að það væri almennt viðurkennt að það sé mjög mikilvægt að fá nýja aðila í atvinnugreinar, en það virðist sem kvótaflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, sem koma hér eða koma ekki vilji halda utan um kerfi sem hindrar að nýliðar komist inn í atvinnugreinina.

Síðan er það flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn sem kennir sig stundum við frjáls viðskipti. Sjálfur formaður þingflokksins kemur og ver sérstaklega þessi atvinnuhöft og höft á samkeppni, óréttmæta viðskiptahætti vil ég segja. Í raun ætti að vera löngu búið að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvað líði því að tekið verði á þessum málum hvað varðar samkeppni í aðalatvinnugrein þjóðarinnar, að fiskvinnslur án útgerðar búi við skerta samkeppnisstöðu miðað við þær sem hafa yfir kvótanum að ráða.

Auðvitað skipta nýliðar máli, eins og ég sagði áðan. Þeir skipta verulegu máli vegna þess að þeir hafa komið með nýjar hugmyndir og þeir nýliðar sem hafa smeygt sér inn í þessa atvinnugrein hafa ítrekað sýnt fram á það að þeir hafa jafnvel búið til nýja markaði. Þeir voru framarlega í því að koma á viðskiptum hvað varðar ferskfisksútflutning. Einnig setja þeir ákveðna pressu á þá sem eru fyrir í atvinnugreininni.

Auðvitað ættu sjálfstæðismenn að átta sig á þessu og í rauninni sætir það furðu að Sjálfstæðisflokkurinn komi hér í veg fyrir eðlilegt viðskiptaumhverfi. Það eru öfugmæli að flokkurinn kenni sig við frjáls viðskipti og sé síðan í þessum ræðustól að mæla á móti þeim.

Ég sé að tíma mínum er að ljúka en það sem ég ætlaði að minnast á hér eru ýmis atriði. Það kom fram á ágætri ráðstefnu sem ég sótti hjá Fiskvinnslu án útgerðar, á aðalfundi, í mjög góðri ræðu Tryggva Leifs Óttarssonar hvert mikilvægi fiskmarkaða er og það að stjórnvöld hafa ekki séð sér neinn hag í því að tryggja þessum mikilvæga atvinnuvegi góð rekstrarskilyrði. Það kom t.d. fram í ræðu hans að þeir fá einungis starfsleyfi til eins árs í senn og síðan þurfa þeir að sækja um upp á nýtt. Það er óneitanlega mjög sérstakt.

Ég tel að það væri mikill akkur í því fyrir þessa umræðu hér í dag að fá fram hjá formanni sjávarútvegsnefndar afstöðu hans í þessu máli vegna þess að það skiptir einmitt byggðarlag hans mjög miklu máli að markaðslögmálin og markaðirnir fái að ráða í fiskvinnslu enda er það svoleiðis erlendis. Við erum undantekningin. Erlendis er það ástand algjör undantekning sem hér er regla. Hér er allur fiskur á föstu verði en erlendis er reglan sú að fiskur sé á markaði.