131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[15:17]

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Þessi umræða er mjög athyglisverð. Mér finnst sérstaklega athyglisvert að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson veigrar sér við því að ræða efni þessarar tillögu og hvaða afleiðingar það mundi hafa ef algjörlega væri skilið á milli veiða og vinnslu og ef farin yrði sú leið sem hann hér leggur til, að allur fiskur verði látinn á markað. Hann veigrar sér alveg við því að ræða hvaða afleiðingar það mundi hafa.

Meðflutningsmaður hans, hv. þm. Jóhann Ársælsson, 2. þm. Norðvest., sagði það í ræðu sinni áðan að það yrði gríðarleg sprenging í sjávarútveginum ef allur fiskur færi á markað. Því væri fróðlegt að vita hvaða hugmyndir hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur um það, hvort hann sé sammála meðflutningsmanni sínum um að þá yrði algjör sprenging í sjávarútveginum og hvernig hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sér fyrir sér hvað út úr því kemur.

Það er mjög merkilegt að hlusta á það sem menn hafa sagt hér á undan. Flestir eða allir þeirra hafa komið að sjávarútvegi og þó heyrir maður raddir eins og þessar frá tveim hv. þingmönnum Samfylkingarinnar, annars vegar hv. þm. Jóhanni Ársælssyni og hins vegar hv. þm. Jóni Gunnarssyni, þennan tón: Þeir sem bestir eru í fiskvinnslu eiga að vera í fiskvinnslu, þeir sem bestir eru í útgerð eiga að vera í útgerð, eins og þessi mál séu þannig vaxin að þetta séu tveir aðskildir hlutir sem hægt sé að skilja á milli.

Nú vita þessir þingmenn báðir — og það veit hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson fullvel — að sá mikli árangur sem við höfum náð, t.d. í útflutningi á ferskum sjávarafurðum, er kominn til vegna þess að útflutningsaðilar hafa getað treyst á hráefnið. Ef við tökum t.d. frystihús Samherja á Dalvík sem dæmi vitum við að Samherji þarf að geta tryggt sér hráefni til þess að geta skuldbundið sig á erlendum mörkuðum vegna þess að þeir þurfa að afhenda fiskinn á réttum tíma, á sama vikudegi árið um kring. Þar kemur engin afsökun til greina. Og það er ekki einungis að þeir verði að geta tryggt sér hráefni, heldur verða þeir að geta skýrt frá því nákvæmlega hvar fiskurinn er veiddur, á hvaða dýpi og hvert sé hitastigið í sjónum til þess að geta náð því verði sem þeir ná og til þess að þeir geti náð þeim mörkuðum sem þeir ná. Þetta vita allir þessir þingmenn, þeir vita hvers vegna þessi árangur er og þess vegna er málflutningur þeirra hér allur falskur og holur hljómur í honum. Það er deginum ljósara að það er ástæðan fyrir hinum sterku frystihúsum sem hér hafa risið, eins og frystihús Samherja á Dalvík, frystihús Útgerðarfélags Akureyringa og hin sterku frystihús á Akranesi, svo að talað sé við hv. þm. Jóhann Ársælsson. Við getum talað um frystihúsin við Ísafjarðardjúp við hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson. Ég veit nú ekki um hvaða frystihús maður á að tala við hv. þm. Sigurjón Þórðarson. (Gripið fram í.)

Ætli allir þessir þingmenn viti ekki að þessi stóru og vel reknu frystihús eru í því góða horfi sem þau eru í í dag vegna þess að þau hafa getað tryggt sér hráefni og vegna þess aðgangs sem hafa að fiski. Þar fyrir utan finnst mér ömurlegt, af því að við sátum nú saman þing Alþýðusambandsins á sínum tíma, ég og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, að hann skuli tala um þessi mál æ ofan í æ án þess að víkja að því í eitt einasta skipti hvað verður um fiskvinnslufólkið sem vinnur í þessum frystihúsum ef það á að þurfa að búa við það að ekki sé hægt að tryggja reglulegt hráefni til húsanna.

Ég held að það sé kominn tími til þess að við tölum ekki aðeins um þá sem eru á sjónum. Við skulum líka tala um þá sem eru í landi. Við skulum líka tala um það verkafólk sem enn vinnur í fiskvinnslu og hugsa okkur hvernig staða þess er. Það er liðin tíð að menn sætti sig við það að láta senda sig heim vegna þess að fiskur berist ekki að landi. Það er liðin tíð að menn í fiskvinnslu sætti sig við það að fá kannski ekki vinnu í tvo eða þrjá mánuði. Þess vegna þurfum við að tala um þetta allt í samhengi og gera okkur grein fyrir því að slíkur rekstur getur ekki staðið nema húsin fái hráefni árið um kring. Húsin geta ekki staðið undir sér, þau geta ekki byggt upp þá fjárfestingu sem þau þurfa að ráðast í til þess að vera samkeppnisfær, t.d. við Kínamarkað — þetta vita hv. þingmenn — nema þau geti byggt sig upp, sparað vinnuafl og lagt í mikla fjárfestingu.

Við getum t.d. horft á það sem er að gerast í dag, þær miklu breytingar sem hafa orðið á loðnuveiðum og -vinnslu. Hvernig væri ástandið í þeim málum ef eigendur loðnufrystihúsa gætu ekki tryggt sér fyrir fram aðgang að loðnunni? Ætli menn hefðu þá margir ráðist í þá nauðsynlegu fjárfestingu sem þurfti til þess að réttlætanlegt væri að fara í þær framkvæmdir? Það eru líka enn fleiri frystihús sem ekki hafa komið sér upp aðstöðu til þess að frysta loðnu. Auðvitað veltur slík fjárfesting á því að eigendur fjármagnsins, eigendur húsanna, geti séð það fyrir að þau fái nægilegt hráefni til þess að fjárfestingin standi undir sér.

Það er merkilegt að heyra þessa hv. þingmenn tala um samkeppni og gera sér ekki grein fyrir því að aðalsamkeppnin sem við Íslendingar eigum í er auðvitað erlendis á hinum hörðu mörkuðum og í þeim löndum sem sækja nú fram eins og t.d. Kína, að við getum fengið sem hæst verð fyrir vöruna sem er auðvitað kjarni málsins.

Mér þótti athyglisvert að hv. þingmenn — hv. 10. þm. Suðurk. komst svo að orði að aðstöðumunur væri á milli þeirra sem fengu úthlutun á fiskkvóta á sínum tíma og reka fiskvinnslu og hinna sem ekki fengu úthlutun. Ætli það séu nákvæmlega sömu eigendurnir að fiskvinnslufyrirtækjunum og voru fyrir 20 árum? (Gripið fram í.) Ég hygg að það sé nú ekki. Eigum við að líta til Akraness, hv. þm. Jóhann Ársælsson? Eru sömu eigendurnir að fiskvinnslufyrirtækjum á Akranesi og í útgerð á Akranesi og voru þegar kvótanum var úthlutað? Hv. þingmaður veit að það er ekki, það er ekki um það að ræða.

Hér er auðvitað verið að tala um hluti sem ekki eru réttir til þess að varpa upp mynd sem er fölsk. Með sama hætti er athyglisvert þegar hv. þm. Jóhann Ársælsson talar um það að útgerðarmenn láti tekjur sem þeir hafa af sjávarafla ekki koma fram í reikningum. (Gripið fram í.) Útgerðarmenn fá fjármuni sem ekki sjást í bókhaldi, sagði hv. þingmaður. Hvað á svona orðbragð að þýða? Eða þegar hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson gefur í skyn að útgerðarmenn brjóti almennt í bága við samkeppnislög og séu þar með lögbrjótar?

Hvers vegna taka hv. þingmenn málið upp á slíkum grundvelli? Hvers vegna reyna þeir ekki að tala um þessi mál af sanngirni og hófsemi og eins og þau liggja fyrir?