131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[15:33]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri kannski ekki síður ástæða til að spyrja hv. þingmann að því hvort allir sjálfstæðismenn séu á móti því að eðlilegt samkeppnisumhverfi komist á í sjávarútvegi. Ég held að hann ætti bara að líta í hliðarsal til að skoða þann fyrsta sem kæmi kannski til greina að kanna hvort hefði sömu skoðun og hann.

Það er nú bara einfaldlega þannig að Samfylkingin hefur barist fyrir því að hér komist á eðlilegt samkeppnisumhverfi í sjávarútvegi. Það hlýtur að vera órjúfanlegur hluti þess að markaðurinn sé látinn leysa úr því hverjir eigi að fá fiskinn sem veiðist við Ísland og líka að markaðurinn sé látinn leysa úr því hverjir eigi að fá réttinn til þess að veiða þann fisk. Allt er þetta hluti af því að búa til eðlilegt samkeppnisumhverfi í þessari mikilvægu atvinnugrein. Það ættu sjálfstæðismenn að skilja. Mér finnst að þeir ættu að setjast niður og velta fyrir sér á hvaða braut þeir eru (Forseti hringir.) í sambandi við grunnatvinnuvegi eins og landbúnað og sjávarútveg á Íslandi.