131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[15:36]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað ætli þessi hv. þingmaður eigi við með því að segja að það sé ekki samkeppni í sjávarútvegi? Það mætti halda að honum sé algjörlega ókunnugt um hvaða ástand er á fiskmarkaði og annars staðar. Það er auðvitað bullandi samkeppni í sjávarútveginum. Ef hv. þingmaður á við það að það hamli samkeppni að menn geti ekki róið eins og hver vill þá er það rétt. Það er sjálfgefið vegna þess að það þarf að takmarka sókn í fiskstofna. Þá er sjálfgefið að menn geta ekki fiskað eins og þeir vilja.

En það hefur oft komið fram í umræðum á Alþingi að hv. þingmaður hefur ekki þau sjónarmið þegar hann talar um fiskveiðar að hann vilji virða umhverfissjónarmið og hann virðir ekki eðlileg friðunarlögmál í þeim efnum. Hann hefur ekki komið með neinar tillögur sem bera vott um það. Sama gildir um þessa sífelldu endurtekningu um samkeppni þar sem hann ætlast til að hver og einn geti fiskað það sem hann vill.