131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[15:37]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er stundum sagt að menn kasti steinum úr glerhúsi. Ég held að hv. þingmanni hafi orðið á að labba á glervegg í málflutningi sínum.

Ég held að ég þekki það rétt, hæstv. forseti, að árangur af þeirri fiskveiðistefnu sem hann og flokkur hans hefur staðið fyrir hafi verið að gefa okkur um 200 þús. tonn árum saman, sem er helmingi minni afli en áður en við fórum að stýra fiskveiðum með því lagi sem nú tíðkast. Það að tala um sérstakan verndunarárangur af þessari stefnu eða uppbyggingarárangur er nánast eins og að labba á glervegg, eins og ég orðaði það.

Ég mótmæli því harðlega að ég sé ekki tilbúinn að leggja til ýmislegt sem ég tel geta orðið til að byggja upp fiskstofna við Ísland. Við í Frjálslynda flokknum höfum m.a. spurt: Er það svo að það borgi sig áfram að veiða alla þessa loðnu til bræðslu? Halda menn að það skili árangri við uppbyggingu fiskstofnanna?