131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[15:41]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er almennt viðurkennt og augljóst að íslenskur sjávarútvegur hefur skilað betri árangri en sjávarútvegur í öðrum löndum. Um það er hv. þingmanni kunnugt. Við höfum séð að hann getur staðið vel undir sér við erfið rekstrarskilyrði og hefur brugðist við nýjum aðstæðum á markaði með undraskjótum hætti.

Hitt finnst mér eftirtektarvert að hv. þingmaður skuli líta svo á að þessi tillaga hér sé svo sem ekki annað en bókhaldsatriði. Hv. þm. Jóhann Ársælsson orðaði það svo að ef þessi tillaga yrði samþykkt og hún næði fram að ganga, yrði framkvæmd, yrði gríðarleg sprenging í sjávarútveginum, ef allur fiskur færi á markað.

Nú ætlar hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson að útskýra fyrir okkur á eftir hvað þetta þýðir hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. Ég tók því svo að hann hefði lofað því. Ef til vill tekur hv. þm. Jón Gunnarsson aftur til máls líka til að skýra þetta.