131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[15:44]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þingmálið sem hér er til umræðu varðar fjárhagslegan aðskilnað útgerðar og vinnslu. Áður en ég kem beint að því máli er kannski vert að tala almennt um sjávarútveginn á Íslandi og fiskmarkaðinn. Við söltum fisk, vinnum fisk í flug, frystum fisk og herðum og svo mætti lengi telja. Fyrirtækin sem framleiða afurðirnar eru af ýmsum toga og dreifð um allt landið.

Sum fyrirtæki byggja hráefnisöflun sína á fiskmörkuðunum á meðan önnur fyrirtæki afla hráefnis með veiðum sinna eigin skipa og þriðji kosturinn, sem reyndar hefur ekki gengið vel upp á Íslandi, er að Rússafiskur hefur verið keyptur til uppþíðingar, endurfrystingar og útflutnings, aðallega til Bandaríkjanna.

Í sjálfu sér er málið afskaplega einfalt. Ástæðan fyrir því að málið kemur fram er fyrst og fremst alvarlegur samkeppnismismunur innan fiskvinnslunnar. Ég hef sjálfur rekið fiskvinnslu og þekki af eigin raun hvernig er að vinna af krafti fyrir því að búa til markaði á erlendri grundu, t.d. í Evrópu fyrir karfa og steinbít og svo má lengi telja, ár eftir ár. Ég hef orðið vitni að því að þegar markaðurinn stækkar og dafnar þá koma stóru fyrirtækin og taka kökuna af manni. Ég hef margoft rekið mig á þetta persónulega á starfsferli mínum sem fiskverkandi.

Ástæðan fyrir því að þeir stærri, sem búa yfir miklum skipakosti og miklum aflaheimildum, geta náð markaðnum af þeim, sem hafa sótt á nýjar slóðir og búið markaðinn, er fyrst og fremst sá mikli munur á samkeppnisaðstöðu sem um ræðir. Út á þetta gengur þetta mál, á mannamáli.

Auðvitað vekur það furðu mína að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki vera hlynntur þessu máli. Helstu rök sjálfstæðismanna gegn málinu eru þau að það verði erfitt fyrir stóru fyrirtækin í landinu að útvega hráefni fyrir stóra markaði. Hér hefur enginn gefið í skyn, hvorki af hálfu stjórnarliða né stjórnarandstæðinga, að með þessu verði hætt að veiða fisk. Við viljum bara breyta farveginum í þá átt að allir hafi jafnan rétt á að bjóða í ferskar afurðir og allur ferskur fiskur fari á markað. Áfram munu útgerðir og fyrirtæki sem búa yfir þessum aflaheimildum njóta góðs af því góða verði sem jafnan fæst á fiskmörkuðum.

Með því að allir standi jafnfætis í fiskvinnslunni mun hins vegar opnast á nýliðun og það er grundvallaratriði hjá hverri þjóð, ég tala nú ekki um í svo stórum atvinnuvegi hverrar þjóðar, að nýliðun sé í iðngreininni. Það er algert grundvallaratriði. Nægir þar að nefna fjármálamarkaðinn á Íslandi sem samanstendur fyrst og fremst af ungu fólki og metnaðarfullu sem hefur sótt fram, eins og allir Íslendingar þekkja, á undanförnum árum í gífurlegri útrás.

Þegar horft er til íslensks fiskiðnaðar — ég leyfi mér að taka dæmi úr minni heimabyggð, Suðurnesjum, Reykjanesbæ — þá hefur hann koðnað niður. Fyrirtæki, fiskvinnslur án útgerðar, sem þar hafa starfað í gegnum árin hafa flestar gefist upp. Við höfum ekki boðið þessu unga fólki aðgang að greininni.

Nýverið, virðulegi forseti, gerði ég mér þann dagamun að heimsækja flestar fiskvinnslur í Reykjanesbæ. Ekki eru þær margar. Það sem vakti athygli mína, þegar ég fór inn í kæligeymslur þessara fyrirtækja, var að hráefnið var svo til ekkert. Það vantar hráefni á fiskmarkaðinn. Árið 2003 voru boðinn upp 30 þús. tonn af ferskum afurðum á fiskmarkaðnum á Íslandi. Heildarveiðin er talin í hundruðum þúsunda tonna.

Síðasti viðkomustaðurinn í þessari ferð minni var þjónustufyrirtæki í Reykjanesbæ sem sérhæfir sig í slægingu, þrifum, flokkun og karar fiskinn og gámar fyrir erlenda aðila. Þegar ég leit inn í kæligeymsluna hjá þessu fyrirtæki kom í ljós að á fjórða hundrað tonna af heilum fiski var að fara í gáma fyrir fyrirtæki á Englandi og í Frakklandi. Í hinum húsunum voru geymslurnar tómar. Þær voru gersamlega tómar.

Það er ástæða fyrir því að þetta þingmál er lagt fram, virðulegi forseti. Mér þykir agalegt að hlusta á málflutning stjórnarliða sem einkennist fyrst og fremst af algjöru metnaðarleysi og skilningsleysi á þessari höfuðatvinnugrein þjóðarinnar. Hér hefur enginn framsóknarmaður talað, virðulegi forseti. Einn þingmaður úr röðum hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins auk fulltrúa þeirra úr sjávarútvegsnefnd hefur talað. Mér þykir með ólíkindum að formaður sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, skuli ekki vera við þessa umræðu. Hann kann að vera ósammála okkur sem fylkjum okkur á bak við þetta mál en það er eins og hann forðist umræðuna, virðulegi forseti. Það er eins og hann hræðist þessar rökræður.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra en vil enda á því að lýsa yfir furðu minni yfir því að flokkur sem kennir sig við hægri pólitík á Íslandi, flokkur sem vill kenna sig við frumkvæði og drifkraft einstaklingsins, skuli ekki hlynntur því að ungt fólk fái aðgang að stærstu atvinnugrein okkar.