131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[16:34]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er erfitt að fá hv. þingmann til að tala um ástandið eins og það raunverulega er. Það eru litlir útgerðarmenn úti á landi, eins og hv. þingmaður veit, sem reyna að bjarga sér með því að veiða og salta sjálfir sinn fisk og á grásleppuvertíð salta þeir sjálfir sín hrogn.

En það sem hv. þingmaður er að leggja til er að banna þessum útgerðarmönnum bæði að verka (Gripið fram í.) sinn fisk og hann vill leggjast líka gegn því að þeir fái að salta sín hrogn því að allt verður að setja á markað. Hv. þingmaður vill algjörlega klippa þarna á, eins og hann segir, hann vill sprengingu í sjávarútveginum. Hann vill að önnur öfl komi þar að verki og hann vill ekki að áfram verði unnið á þeim forsendum sem gert hefur verið. Það er kjarni málsins.