131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[16:38]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að það sé ný söguskýring að hráefnisskortur valdi því að verið sé að loka húsinu á Stöðvarfirði. Ég man ekki betur en stjórnendur Samherja hafi gefið þá skýringu að það sé fyrst og fremst óhagstætt gengi sem valdi því að þeir telji að rekstur þar sé ekki lengur arðbær. Ég hef sjálfur mjög miklar efasemdir um það og hef beðið í ofvæni eftir því að fjölmiðlar færu nú að kafa nánar ofan í þetta mál og skoða hvernig málum er háttað á Stöðvarfirði. En ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með að það hefur ekki gerst og okkur skortir upplýsingar um hvað í raun hefur gerst á Stöðvarfirði því ekki er mjög langt síðan við gátum heyrt og lesið um það í fjölmiðlum að þar væri allt í blóma og gengi mjög vel í vinnslu og þaðan færi m.a. mikið af fiski á markaði erlendis.

Mig langar bara til að koma því að hér — tími minn er stuttur — að það hvernig við förum að því að skilja á milli veiða og vinnslu er að sjálfsögðu útfærsluatriði sem ætti að ræða. Það ætti m.a. að ræða í sjávarútvegsnefnd. Það er ekki verið að boða hér neina byltingu sem muni kollvarpa öllu, að sjálfsögðu ekki. Þetta eru allt saman spurningar um útfærslur (Forseti hringir.) og aðferðir.