131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[16:41]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég undra mig mjög á þeim viðhorfum sem hv. þm. Halldór Blöndal er að lýsa hér. Ég er hér með skýrslu í höndunum sem heitir „5 ára átak til að auka verðmæti sjávarfangs“. Hún birtist í október 2002 og var unnin fyrir sjávarútvegsráðuneytið.

Þar segir um þorskinn, með leyfi forseta:

„Ef allur heill óunninn þorskur, sem fluttur var út 2001, væri nýttur í fersk flök þá gæti það skilað 300 milljónum ISK í auknum útflutningstekjum ...“

Þar segir um ýsuna, með leyfi forseta:

„Ef öll ýsa sem flutt er út heil fersk 2001 væri tekin til vinnslu og framleidd fersk flök í flug þá væri hægt að gera ráð fyrir að heildarverðmæti ýsuafurða hækkuðu um 450 milljónir ISK ...“

Þetta er stefna sem sjávarútvegsráðuneytið lét vinna. Ég hefði talið að sú tillaga sem við höfum hér verið að flytja væri beinlínis til þess að ýta undir aukið verðmæti í sjávarútvegi. Ég er alveg sannfærður um að við mundum auka verðmætið og verðmætasköpun í sjávarútvegi og við mundum auka atvinnu í sjávarútvegi ef hún fengi fram að ganga. Það er ekki spurning að ég tel að við værum þá að vinna þjóðinni mikið gagn.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld standa vörð um frjálsa verslun og taka þátt í gerð alþjóðlegra samninga. Þau eiga að sjá til þess að sú verðmætasköpun sem á sér stað komi þjóðinni allri að gagni ...“

Þetta er stefnumótun sjávarútvegsráðuneytisins, hv. þm. Halldór Blöndal.