131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[16:42]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður las upp kafla um að æskilegt væri og gott, við getum sagt nauðsynlegt, að sporna við því að óunninn fiskur yrði fluttur úr landi í gámum. Ég hef aldrei lýst mig andsnúinn því, síður en svo. Þvert á móti er ég mjög hlynntur því að fiskur sé unninn hér á landi ferskur til útflutnings.

Með því að við eigum sterk sjávarútvegsfyrirtæki þá vinnum við á móti þeirri þróun að fiskurinn fari óunninn úr landi. Það er kjarni málsins. Þess vegna er ég ekki hlynntur því að höggva á tengsl veiða og vinnslu. Ef við horfum á stóru sjávarútvegsfyrirtækin þá hafa þau einmitt gengið fram í því að opna nýja markaði. Þau hafa tryggt búsetu á stöðum og þau hafa líka gripið til úrræða sem duga til þess að reyna að halda framleiðslunni í því horfi að hún standi undir sér, m.a. með dýrri fjárfestingu og öðru slíku eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson veit fullvel.