131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[16:44]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef dregið fram nauðsyn þess að lítil fyrirtæki geti starfað eins og í Grímsey. Ég hef líka vakið athygli á því í sambandi við loðnufrystingu að til þess að fyrirtæki leggi í þann mikla kostnað sem því fylgir að setja upp allan þann búnað til þess að loðnufrysting geti gengið vel fyrir sig þurfa menn að hafa mikið fjármagn á bak við sig og hafa aðgang að öruggu hráefni. (GAK: Finnst þér ...) Þetta veit hv. þingmaður að er rétt og hann veit að sú bylting sem hefur orðið í uppsjávarfiskinum er vegna þess að þar koma sterk fyrirtæki að sem ráða bæði yfir vinnslunni og yfir veiðunum. Þegar hann talar um að slíta þetta hvort tveggja í sundur er hann að gera það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði, hann er að varpa sprengju inn í íslenskan sjávarútveg. (GAK: Við erum ekki miklir sprengju...)