131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[17:07]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls aftur í umræðunni en verð þó að gera það í ljósi þeirra viðbragða sem stjórnarliðar, sem hér hafa talað, hafa sýnt þeirri litlu tillögu til þingsályktunar sem hér er lögð fram og rædd í fjórða skiptið í sölum Alþingis.

Það er í raun undarlegt að horfa á og upplifa það að í hvert skipti sem lögð eru fram mál sem tengjast sjávarútvegi virðist aldrei vera hægt að ræða um það mál sem verið er að leggja fram. Stjórnarliðar þurfa alltaf að hlaupa út um víðan völl og kalla „úlfur, úlfur“, þyrla upp alls konar reyk og rykskýjum til að reyna að fela það sem verið er að tala um og kjarna þess sem verið er að tala um.

Hér er verið að leggja fram tillögu til þingsályktunar um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og fiskvinnslu. Markmiðið með því er að reyna að draga fram hjá þeim fyrirtækjum sem bæði reka útgerð og fiskvinnslu kostnað, tekjur og gjöld sem fylgja hvorum þætti þessa rekstrar fyrir sig. Þá rjúka menn upp og segja: Það mun verða upphlaup á landsbyggðinni, það mun verða landauðn á landsbyggðinni o.s.frv., o.s.frv.

Samkeppnislög eru sett hér á Íslandi til að reyna að tryggja það að sá stóri í krafti þeirrar aðstöðu sem hann hefur skapað sér kannski á undanförnum árum og þeirri aðstöðu sem hann hefur skapað sér á markaði geti ekki beitt óheiðarlegum og ósiðsamlegum aðferðum til að koma í veg fyrir samkeppni nýrra aðila. Lögin eru ákaflega skýr hvað það varðar að þau eru sett til þess að reyna að koma í veg fyrir að þeir sem hafa notið sérhagsmuna eða haft sérstaka aðstöðu í sinni grein geti ekki nýtt þá aðstöðu til að kæfa með ólöglegum eða ósiðsamlegum hætti þá samkeppni sem er að fæðast.

Í samkeppnislögunum segir að lögin hafi það markmið að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Ég sé ekki betur en þetta markmið eigi vel við um sjávarútveginn. Lögin segja einnig, með leyfi forseta:

„Markmiði þessu skal náð með því að:

a. vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,“ — á þetta við í sjávarútvegi? Eru einhverjar óhæfilegar hindranir og takmarkanir á frelsi í atvinnurekstri í sjávarútvegi?

„b. vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum, skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,“ — er þetta til í sjávarútvegi á Íslandi? Er ástæða til að skoða það?

„c. auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.“

Þetta eru þrjú meginmarkmið samkeppnislaga og ég sé ekki betur en að öll þau markmið eigi vel við hvað varðar sjávarútveginn og full ástæða til að skoða rekstrarumhverfi hans með tilliti til þeirra markmiða sem koma fram í samkeppnislögunum.

En það er ekki einu sinni verið að fara fram á það með þessari þingsályktunartillögu, ekki í þessu skrefi. Það er eingöngu farið fram á að aðskilja fjárhagslega rekstur útgerðar og fiskvinnslu, það verði fjárhagslegur, bókhaldslegur aðskilnaður þannig að menn sjái svart á hvítu hvernig hvor þáttur stendur í rekstri þeirra stóru fyrirtækja sem sinna báðum þessum þáttum. Það er allur glæpurinn sem hér fer fram.

Hér hefur verið rætt um ferskfiskútflutning og að stóru öflugu fyrirtækin, sem bæði eru með útgerð og fiskvinnslu, séu farin að flytja út ferskan fisk á markaði erlendis og þurfi að geta afhent þann fisk á hverjum degi og miðað við pantanir o.s.frv. Þetta er allt satt og rétt, en inn á hvaða markaði eru þessi fyrirtæki að fara?

Markaðir sem smærri fiskframleiðendur hafa verið að vinna í gegnum tíðina, koma á, styrkja og rækta hist og her um Evrópu og Bandaríkin, liggja núna undir því sem ég vil leyfa mér að kalla árásarverðlagningu frá þessum stóru aðilum sem eru bæði með útgerð og fiskvinnslu. Minni aðilar sem hafa verið að sinna þessum mörkuðum, framleiða þessa vöru, hágæðavöru, borga hátt verð fyrir fiskinn og selja hann háu verði erlendis, upplifa núna samkeppni sem þeir hafa ekki upplifað áður.

Sú samkeppni er ekki að koma frá Kína, hún kemur frá stóru útgerðunum sem hafa bæði útgerð og fiskvinnslu á sínum höndum. Er það allt í lagi og engin ástæða til að gjalda varhuga við að þetta geti gerst með þeim hætti að þeir sem ráða því nánast hvað þeir kalla það að fiskurinn kosti frá útgerð til fiskvinnslu, geti beitt tímabundinni árásarverðlagningu til að ýta hinum út af markaði? Þetta væru kölluð óheiðarleg samkeppni í öðrum greinum. Þetta er óheiðarleg samkeppni í sjávarútvegi og okkur ber að taka á slíkum málum og laga þau þegar þau koma upp.

En þá koma hér hagsmunagæslumenn stórútgerðanna, tala ekkert um það mál sem hér er undir, blása um eitthvað allt, allt annað eins og hv. þm. Halldór Blöndal hefur gert í sínu undarlega máli í dag. Ég verð þó að segja hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni það til hróss að hann hélt sig nánast við þá tillögu sem hér var verið að ræða og ræddi efni hennar en það gerði ekki hv. þm. Halldór Blöndal heldur óð hér, mér liggur við að segja í þvílíku rugli, út um víðan völl að það var varla fyrir mann með báða fætur jafnlanga að fylgja honum eftir.

En af hverju gerist þetta? Jú, það gerist vegna þess að þessir stjórnarþingmenn, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, eru hér í grímulausri hagsmunagæslu fyrir stórútgerðirnar í landinu. Það liggur við að stundum þegar maður situr á skrifstofunni sinni og er að horfa á skjáinn, á suma hv. þingmenn tala hér úr pontu Alþingis, að það vanti ekkert annað en að það renni fyrir neðan myndina svona borði eins og stundum gerist í sjónvarpinu þar sem á stendur: Hv. þingmaður er í boði stórútgerðarinnar. Þvílík er hagsmunagæslan, þvílíkt er grímuleysið og satt að segja sjáum við það endurspeglast í þessari litlu þingsályktunartillögu að þetta skuli vera í fjórða skiptið sem menn leggja hana hér fram og hún skuli alltaf hafa verið kæfð og drepin í sjávarútvegsnefnd. Hún hefur aldrei fengið að koma aftur inn í sali Alþingis þannig að hér gætu menn rætt þær umsagnir sem fram hefðu komið, hér gætu menn rætt efni þessa máls og tekið afstöðu til þess.

Af hverju gera menn það ekki? Það er vegna þess að hagsmunagæslumenn stórútgerðar vilja ekki rétta upp hönd og fella svona tillögu heldur er hún látin sofna líknardauða í sjávarútvegsnefnd undir stjórn hv. formanna sem yfirleitt koma frá stjórnarflokkunum. Og merki um hvernig þetta gengur fyrir sig á Alþingi í dag: Hv. formaður sjávarútvegsnefndar hefur ekki látið sjá sig í salnum alla umræðuna.