131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[17:15]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Rétt er að vekja athygli á að það eru fleiri sem hafa ekki látið sjá sig í umræðunni og ég sakna sárt framsóknarmanna en þeir sjá greinilega ekki ástæðu til að ræða tillöguna. Hvað veldur? Eru þeir á sífelldum flótta í umræðunni um sjávarútvegsmál? Ég tel svo vera eða er skýringin einfaldlega sú að þeir hafa ekki vit á því sem á að ræða hér? Hvort er það? Þora þeir ekki að standa við það að þeir eru fulltrúar þess að viðhalda, ég vil segja óréttmætum viðskiptaháttum? Hvar eru þeir í umræðunni? Ég lýsi eftir þeim. Þeir hafa ekki látið sjá sig og ég tel það vera ákveðna skömm fyrir flokkinn að geta ekki tekið þátt í umræðu um mjög mikilvægt mál sem varðar samkeppnismál, sjávarútvegsmál og landsbyggðina. En þetta er kannski hluti af nútímavæðingu Framsóknarflokksins að ræða helst ekki mál sem varða landsbyggðina. Það á að ræða önnur mál. Ef á að hækka eitthvað á landsbyggðinni, þá taka þeir þátt í því og leggja mikla orku og jafnvel kapp í það.

Einnig er mjög sérstakt að verða vitni að því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi meiri skilning á markaðslögmálum en Sjálfstæðisflokkurinn. Það er afar sérstakt að sjá að t.d. hinir ungu og efnilegu þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þeir fjórir sem komust á þing, koma ekki til að ræða um samkeppnismál og frjálsa viðskiptahætti og hvernig við förum heiðarlega að í viðskiptum. Nei, þeir þora það ekki. Þeir láta þingforsetanum það eftir, hv. þm. Halldóri Blöndal. Hann gerði það mjög eftirminnilega og maður fer að efast um hvort hann sé þingmaður kjördæmisins í rauninni, Norðausturkjördæmis, eftir þá ræðu og í raun efast ég um að hann sé þingmaður Eyjafjarðar eftir að hafa hlustað á ræðu hans. Ég tel hann einna helst vera þingmann Samherja. Það var eins og hann teldi að sjávarútvegur snerist eingöngu um eitt fyrirtæki, Samherja. Það er alveg með ólíkindum að hlusta á þvílíka ræðu og þegar á að ræða um hvort jafnræði eigi að vera meðal fyrirtækja þá fer hann í að ræða um Samherja, hann fer að ræða um sókn í fiskstofna. Hvar er Sjálfstæðisflokkurinn? Hvar eru hinir ungu efnilegu þingmenn? Það er eingöngu sendur fram á völlinn aldinn þingforseti og hann ræðir um Samherja og sókn í fiskstofna. En þetta er í rauninni mjög alvarleg umræða.

Sérstaklega ættu ungir þingmenn að hafa skilning á því að atvinnuvegir ganga ekki til lengdar nema ákveðin endurnýjun og nýliðun verði. Þessi tillaga gæti einmitt opnað á að nýliðun yrði. Að vísu hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra einhvern skilning á því að hægt sé að auka verðmæti sjávarfangs og hann fór þá leið að stofna opinberan sjóð. Það er mjög sérstakt að verða enn og aftur vitni að því að flokkur sem vill báknið burt fer þá leið að í staðinn fyrir að opna atvinnuveginn fyrir nýliðun og nýjum hugmyndum þá stofnar hann opinberan sjóð. Það er hans leið og það er verulegt áhyggjuefni. Ég tel að þetta atriði afhjúpi í raun þessa flokka. Þetta eru ekki flokkar sem vilja að almenn lög gildi í landinu heldur er verið að halda verndarhendi yfir einhverju ákveðnu fyrirtæki, eins og hæstv. þingforseti gerir gagnvart Samherja. Ég verð eiginlega að spyrja í framhaldi af því sem hv. þm. Jón Gunnarsson kom inn á að hæstv. forseti væri í boði Samherja. Auðvitað þarf maður að velta þessu fyrir sér. Er eitthvert samhengi t.d. á milli þess að Sjálfstæðisflokkurinn leynir því hverjir greiða í kosningasjóði flokksins og þess hvað hann er tregur til að láta venjuleg lögmál gilda sem gilda annars staðar í heiminum? Meira að segja í Færeyjum virðist fiskvinnsla þrífast mjög vel ef almenn lögmál gilda. Nei, það má ekki ljóstra því upp. Auðvitað veltir maður því fyrir sér hvort t.d. hæstv. þingforseti sé í boði Samherja því hann hafi einfaldlega greitt vel í kosningasjóð Sjálfstæðisflokksins og sé í boði Samherja og vilji þess vegna halda því boði opnu.

Ég tel að þessi umræða sé með ólíkindum og eftir hana stendur að framsóknarmenn hafa ekki látið sjá sig og sjálfstæðismenn hafa verið með mjög undarlegan málflutning og ég verð að segja að þetta er þessum flokkum einfaldlega til skammar.