131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[17:55]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér er afar merkilegt mál á ferðinni. Ég tel vert að hafa í huga að heimild ríkisstjórnarinnar til sölu á hlutabréfum í Símanum er komin til ára sinna. Forsendur hafa breyst frá því að hún var samþykkt. Reyndar man ég ekki nákvæmlega hvort það eru fjögur eða fimm ár síðan það var. Þá fór allt út um þúfur, sú sölutilraun sem þá var reynd.

En síðan hefur margt breyst. Það er því afar mikilvægt að þessi umræða fari fram og ríkisstjórnin geri grein fyrir þeim aðferðum sem hún ætlar að stunda við sölu á þeim hlutabréfum og hvaða markmiðum hún hyggst ná með sölunni.

Það getur ekki gengið upp að hafna umræðum um fjarskiptanetið og söluaðferðina vegna þess að það mál sé á dagskrá, að hæstv. ráðherrar sem sjá um söluna skuli ekki sitja hér og taka til máls og gera grein fyrir því hvernig þeir hyggist standa að málum.

Þetta er ekki síður alvarlegt sökum þess að á Íslandi gilda engin lög um hvernig ríkiseignir skuli seldar eða með þær farið. Þannig ráða fyrst fremst ákvarðanir ráðherra hverju sinni hvernig að því er staðið auk ákvarðana einkavæðingarnefndar. Í því ljósi, virðulegi forseti, er afar mikilvægt að hæstv. ráðherrar komi og geri grein fyrir sjónarmiðum sínum til þess að Alþingi geti tekist á við þetta mál.

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að taka undir þau sjónarmið sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson setti fram áðan, að það sé ástæða til að fresta umræðunni þar til viðkomandi hæstv. ráðherrar sem óskað hefur verið eftir geta verið viðstaddir. Það er afar mikilvægt að á Alþingi fari fram umræða um þetta stóra mál. Það þarf að vera hægt að skiptast á skoðunum við forustumenn ríkisstjórnarinnar. Það getur ekki gengið að þingmenn stjórnarandstöðunnar tali út í tómið og við sjálfa sig. Það mun ekki tryggja að fram komi sú aðferð sem ríkisstjórnin hyggst styðjast við þegar og ef til sölunnar kemur.