131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[17:58]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það er óneitanlega sérkennilegt að ræða mikilsverð stefnumál eins og það sem hér er til umfjöllunar án þess að þeir sem með þessi mál fara af hálfu ríkisstjórnarinnar séu í þingsal og gefi því gaum sem hér er sagt og án þess að formenn þeirra nefnda sem eiga eftir að fjalla um málið láti svo lítið að sitja í þingsalnum og hlusta á þau rök sem fram eru borin. Mér sýnist þetta orðin lenska í þingsalnum að þeir aðilar láti sig vanta og finnist með einhverjum hætti fyrir neðan sína virðingu að eiga einhver orðaskipti við stjórnarandstöðuna í þingsölum. Mér finnst ansi illa komið fyrir þinginu ef menn mega búa við það af hálfu stjórnarsinna.

Varðandi málið sem hér er mælt fyrir, þingsályktunartillögu um endurskoðun á sölu Símans, þá tel ég um mjög brýnt mál að ræða og tímabært. Ég tel mikilvægt að Alþingi og ríkisstjórn taki á þessu máli hið fyrsta. Eins og hér hefur komið fram var mörkuð sú stefna fyrir allnokkrum árum síðan að stefna að sölu Símans. Það ferli var hafið þótt því hafi ekki verið lokið. Þá virðist ríkisstjórnin hafa markað sér þá stefnu að selja fyrirtækið í einu lagi, þ.e. bæði virðisaukandi þjónustu og fjarskiptaþjónustu Símans og hins vegar grunnnetið líka. Því andmælti m.a. Samfylkingin.

Nú kann vel að vera að menn hafi á þeim tíma einhverra hluta vegna talið að það væri skynsamleg leið að fara en ég held að allir hugsandi menn hljóti að sjá það í dag að sú leið er kannski hvað verst ef til sölu Símans kemur. Ég er næstum því sannfærð um að ef menn töluðu saman um málið og færu vel yfir það væri hægt að ná um það pólitískri samstöðu að fara ekki þá leið að selja grunnnetið með fjarskiptaþjónustu Símans eða þeirri virðisaukandi þjónustu sem Síminn er með á sínum snærum.

Þetta segi ég vegna þess að ef svo fer fram sem horfir er veruleg hætta á því að fólk lokist inni í tveimur mismunandi kerfum, annars vegar í fjarskiptakerfi hjá Símanum og hins vegar hjá Og Vodafone og þeim fyrirtækjum sem því tengjast og til verði mismunandi „vöndlar“ eins og kallaðir eru, heildstæð þjónusta sem boðin er hjá hvorum aðila fyrir sig og engir gagnvegir verði þar á milli og fólk lokist inni í öðru hvoru kerfinu og nýir aðilar sem vilja komast inn í annaðhvort að selja þjónustu eða framleiða efni og dreifa því komist ekki inn á markaðinn, það verði engin nýliðun á þessu sviði eins og svo mikilvægt er.

Nú er staðan sú að verið er að dreifa efni og upplýsingum, kannski fyrst og fremst efni en reyndar upplýsingum líka, í gegnum fjögur mismunandi kerfi. Það er í fyrsta lagi breiðband Símans og ADSL-tengingin sem Síminn hefur, koparinn hjá Símanum. Þar er verið að dreifa efni og þar þarf að fjárfesta verulega til þess að það kerfi fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru, bæði í grunnkerfinu og eins í móttökubúnaði og aðgangsstýringu sem þarf að vera hjá hverjum og einum sem tekur við þeim gögnum sem send eru eða því efni sem sent er í gegnum kerfið. Í öðru lagi erum við með Norðurljós eða Digital Ísland og örbylgjuna, það er dreifikerfi fyrir stafrænt sjónvarp í eigu þeirrar samsteypu. Í þriðja lagi erum við með Íslandsmiðil á vegum Landsvirkjunar sem dreifir efni með jarðbundnum gervihnattasendi og í fjórða lagi er Orkuveita Reykjavíkur að fjárfesta í ljósleiðara.

Það eru fjórir aðilar að fjárfesta í mismunandi dreifikerfum og eru í samkeppni um viðskiptavinina. Allir ætla sér að fjárfesta í grunnneti, allir ætla að fjárfesta í móttökubúnaði og hverjir borga svo brúsann þegar upp er staðið? Það eru auðvitað neytendur.

Þrír af þessum fjórum aðilum eru opinberir aðilar, Síminn, Íslandsmiðill á vegum Landsvirkjunar og Orkuveita Reykjavíkur. Þetta eru opinber fyrirtæki sem þarna eiga hlut að máli og eru að fjárfesta bæði í dreifikerfum og móttökubúnaði. Ég held því að áður en menn stíga það óheillaspor að selja Símann úr eigu ríkisins með grunnnetinu ættu menn að fara mjög vandlega yfir það hvort ekki er hægt að sameinast í einu fyrirtæki, einu landsneti eins og í raforkukerfinu, að það verði eitt landskerfi sem allir þessir aðilar gætu áttu hlut í og hægt væri að nota mismunandi útfærslur eftir því sem hentaði á hverjum stað. Það er nefnilega ekki víst að það henti alls staðar það sama.

Við vitum að það verður ekki lagður ljósleiðari í allar byggðir landsins. Í þeim tilvikum er hægt að nota Íslandsmiðilinn eða dreifinguna með jarðbundnum gervihnattasendum eins og Landsvirkjun er með og í einhverjum tilvikum er hægt að nota koparinn o.s.frv. Það er því hægt að búa til mismunandi möguleika á því að dreifa efni, gögnum og upplýsingum eftir háhraðatengingum til landsins alls. Þetta opnar á möguleikann á þessu og sparar fjárfestingu í dýru grunnneti og dýrum og mismunandi móttökubúnaði. Ef hægt er að spara í því er auðvitað hægt að nota þá fjármuni í að tryggja að landið allt hafi aðgang að háhraðatengingu, því eins og fram kom í máli þeirra sem á undan töluðu skiptir það sköpum. Það skiptir sköpum fyrir byggð í landinu að aðgangur að þessari upplýsingahraðbraut, sem er háhraðatenging, verði greið hvar sem menn búa á landinu. Þetta er algjört grundvallaratriði fyrir byggð í landinu að menn hafi aðgang að háhraðatengingum. Það er hægt að fjárfesta í því í þágu landsmanna allra ef menn verja ekki milljörðum á milljarða ofan til þess að fjárfesta í grunnneti þar sem keppnin er mest eins og á höfuðborgarsvæðinu.

Hættan sem ég held að sé kannski mest núna er sú að menn lokist inni í mismunandi dreifiveitum og það verði ekki nýliðun í greininni ef svo heldur fram sem horfir.

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað tala talsvert lengra mál um þetta en ég sé að tíma mínum er að ljúka, en ég kem kannski aftur og ræði um þetta vegna þess að ég held að það sé ekki of seint að fara í þessa aðgerð. Það er ekki of seint en tíminn er að renna frá okkur. Tíminn er að renna frá okkur og það var samin um þetta sérstök greinargerð fyrir samgönguráðuneytið í apríl 2003. Þar var lagt til að þessi leið (Forseti hringir.) yrði farin og ég held að menn ættu að dusta rykið af þeirri greinargerð og fara út í þær aðgerðir sem þar voru lagðar til.