131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[18:30]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikill er máttur eftirlitsstofnana. Hv. þingmaður orðaði það einhvern veginn á þá leið að eftirlitsaðilar ættu að sjá til að hér yrðu engin lögbrot framin. Samkeppnisstofnun hefur starfað frá árinu 1994. Þó var uppi verðsamráð í olíumálum allan þann tíma. Tilvist þessara stofnana tryggir ekki að brot séu ekki framin. Hins vegar hafa þau það hlutverk að hafa eftirlit og reyna með því að koma í veg fyrir að brot séu framin. Við viljum gjarnan búa til umhverfi til að reyna að tryggja að þessi brot séu ekki framin. Það er okkar framlag í þessu máli.

Það eru mýmargir úrskurðir til um að Síminn hafi í gegnum tíðina brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni er mér bæði ljúft og skylt að útvega hv. þingmanni þá úrskurði.

Í umræðunni hefur verið bent á að samkeppnisaðilar á þessum markaði kvarta hástöfum yfir því að fá ekki þann aðgang sem lög kveða á um. Hv. þingmaður segir að ef við höfum ekki skýr dæmi þá verðum við að sanna það. Hún segir einfaldlega að fylgi ekki frekari sannanir en orð þessara aðila þá sé ekkert að marka þá gagnrýni. Ég vil mótmæla því.

Við eigum að skilja við þetta mál á þann veg að ekki séu fyrir hendi aðstæður fyrir fyrirtæki til að komast í einokunaraðstöðu. Það er kjarninn (Forseti hringir.) í okkar máli við þessa umræðu, virðulegi forseti.