131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[18:41]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott ef ég hef vakið hv. þingmann til umhugsunar um þessi mál. Ég hef fylgst náið með samkeppnismálum á fjarskiptamarkaði. Þeir sem keppa við Símann, t.d. í Skagafirði þar sem ég hef rætt við menn um málið, hafa kvartað sáran undan stöðunni. Ég hef hér bréf frá Inter sem ég gæti lesið úr. Þeir hafa sent inn erindi til Samkeppnisstofnunar um það hve langan tíma tekur að fá niðurstöðu í mál. Ég tel að það væri sómi af því að tryggja samkeppnina. Ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn vakni til þess verks með okkur í Frjálslynda flokknum og öðrum flokkum að tryggja samkeppni á þessum markaði og einnig að Samkeppnisstofnun vinni verk sín þannig að það taki ekki 16 mánuði að fá niðurstöðu í mál.

Hv. formaður samgöngunefndar talaði um kvartanir til Póst- og fjarskiptastofnunar en mig minnir að þegar frumvarpið varðandi þá stofnun var samþykkt — ég var reyndar ekki á þingi þá en kynnti mér engu að síður málið — hafi einmitt verið rætt um að fjölga starfsmönnum sem sinntu þessum málaflokki. Mér skilst að það hafi ekki verið gert. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hafi fylgt því eftir.