131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[18:52]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef einmitt spurt um þessa hluti og bar upp spurningu á síðasta þingi: Hefur Landssími Íslands tryggt fjárhagslegan aðskilnað í þeirri starfsemi sem lýtur sérstaklega að virðisaukandi þjónustu, t.d. internetþjónustu, GSM-farsímaþjónustu og NMT-farsímaþjónustu? Þegar maður spyr hæstv. fjármálaráðherra slíkra einfaldra spurninga þá svarar hann ekki. Hvernig ætli standi á því?

Svarið hans er, eins og ég las upp áður: „Ráðuneytinu er ekki kunnugt um það hvort Póst- og fjarskiptastofnun hafi farið fram á það við Landssímann að hann viðhafi fjárhagslegan aðskilnað í umræddri starfsemi.“ Hæstv. fjármálaráðherra treystir sér sem sagt ekki til að ganga úr skugga um það hvort fyrirtækið sem hann ræður nánast einn yfir fari að lögum. Ef menn hafa ekkert að fela í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum og allt á að vera neytendum til hagsbóta hefðu menn rænu á því að svara svona einföldum spurningum. Þá væru menn ekki að velkjast í vafa um hvort staðið væri við hlutina.