131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Efling fjárhags Byggðastofnunar.

468. mál
[18:54]

Flm. (Herdís Á. Sæmundardóttir) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um að efla fjárhag Byggðastofnunar er hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að veita einn milljarð króna til þess að treysta fjárhag Byggðastofnunar og gera henni kleift að takast á við verkefni sín af fullum styrk. Fé þessu verði varið til að styrkja eiginfjárstöðu stofnunarinnar, fylgja eftir átaksverkefnum sem stofnunin er þegar þátttakandi í og til þátttöku í nýjum slíkum verkefnum, auk hlutafjárþátttöku í félögum sem eru til þess fallin að efla nýsköpun og atvinnuþróun á landsbyggðinni.

Greinargerð með tillögunni hljóðar svo:

Með aukinni samkeppni á fjármagnsmarkaði undanfarna mánuði er nú svo komið að langtímavextir viðskiptabanka og sparisjóða hafa lækkað mjög verulega. Hefur þetta haft í för með sér að hinum fjárhagslega traustari úr hópi viðskiptavina stofnunarinnar bjóðast nú lægri vextir hjá viðskiptabönkunum. Þetta veldur því að tekjur stofnunarinnar dragast verulega saman. Í lögum um Byggðastofnun er kveðið á um að fjárhagslegt markmið lánastarfsemi stofnunarinnar skuli vera að varðveita eigið fé hennar að raungildi. Öll útlán eru flokkuð með tilliti til áhættu og er lagt í afskriftasjóð jafnharðan og ákvarðanir eru teknar. Auk þess sem tekjur Byggðastofnunar munu að óbreyttu dragast saman næstu mánuði og missiri hefur stofnunin undanfarin ár þurft að glíma við mikinn taprekstur sem einkum orsakast af miklu útlánatapi og minnkandi framlögum úr ríkissjóði til að styrkja eigið fé hennar. Hefur þetta haft þær afleiðingar að eigið fé stofnunarinnar hefur minnkað verulega og nam eiginfjárhlutfall hennar 10,85% í árslok 2003, hafði þá lækkað úr 16,45% í árslok 2001. Þetta dregur mjög úr getu stofnunarinnar til hlutafjárþátttöku í fyrirtækjum og til að veita óafturkræfa styrki, og að óbreyttu er ekki gert ráð fyrir að stofnunin veiti styrki eða kaupi hlutafé á árinu 2005. Byggðastofnun hefur síðustu ár ekki notið sérstakra framlaga úr ríkissjóði til að styrkja efnahag sinn.

Í upphafi árs 2003 ákvað ríkisstjórnin að fela Byggðastofnun að ráðstafa 500 millj. kr. af sérstakri 700 millj. kr. fjárveitingu til atvinnuþróunarverkefna á landsbyggðinni. Í fyrsta lagi var stofnuninni heimilað að leggja fram hlutafé í álitleg sprotafyrirtæki og fyrirtæki í skýrum vexti. Til þessa hluta voru veittar 350 millj. kr. Í öðru lagi var svo Byggðastofnun falið að hafa frumkvæði um rekstur vel mótaðra stuðningsverkefna sem væru til þess fallin að efla nýsköpun og atvinnuþróun á landsbyggðinni. Til þessa hluta voru veittar 150 millj. kr. Stofnuninni bárust umsóknir fyrir margfalda þá fjárhæð sem til ráðstöfunar var. Standist allar áætlanir og verkefnin sem ákveðið var að fjárfesta í verða að veruleika munu mjög mörg ný störf verða til á landsbyggðinni í ýmsum greinum atvinnulífsins. Sá mikli fjöldi umsókna sem stofnuninni bárust er jafnframt til merkis um mikla þörf fyrir áhættufjármagn til nýsköpunar í atvinnulífinu. Ljóst er að ný störf verða ekki til í hefðbundnum framleiðslugreinum heldur með nýsköpun sem krefst þolinmóðs fjármagns. Átak sem þetta þyrfti því raunverulega að vera árlegt.

Frú forseti. Við þetta er í sjálfu sér ekki miklu að bæta. Ég vil þó láta það koma fram að sl. tvö ár hefur stofnunin gengið í gegnum mikla endurskipulagningu hvað varðar innra starf hennar. Nýjar verklagsreglur hafa verið settar sem taka á öllum verkferlum varðandi útlána- og fjármálastarfsemi og eignaumsýsu, settar hafa verið reglur um störf stjórnar, siðareglur, reglur um umsjón og sölu fullnustueigna og fleira mætti til telja.

Strangar kröfur eru gerðar til umsækjenda og viðskiptamanna um traustar upplýsingar og raunhæfar áætlanir. Þetta er gert í þeim tilgangi að tryggja góða stjórnsýslu, jafnræðisreglu og gegnsæi. Þá hefur stofnunin einnig sett sér viðmið um áhættugreiningu og áhættustjórnun, veð og tryggingar sem og forsendur við mat á þessum þáttum.

Fyrir utan að vera lánastofnun gegnir Byggðastofnun einnig ákaflega miklu hlutverki sem rannsóknar-, þróunar- og ráðgjafarstofnun fyrir atvinnulíf landsbyggðarinnar. Það er skoðun þeirrar sem hér stendur að þetta hlutverk hennar beri að efla enn frekar þannig að hún sé betur í stakk búin til að bregðast við þegar erfiðleikar steðja að einstökum atvinnugreinum eða einstökum byggðarlögum.

Eins og ég kom að kemur fram í greinargerð með tillögu þessari að aukin samkeppni á fjármagnsmarkaði hefur leitt til þess að hinum fjárhagslega sterkari úr hópi viðskiptavina Byggðastofnunar hafa boðist betri kjör hjá viðskiptabönkunum.

Nú er það í sjálfu sér ákaflega jákvætt að bankarnir séu farnir að gefa landsbyggðinni meiri gaum og auka viðskipti sín þar, því ber að fagna. Það skal hins vegar ítrekað að viðskiptabankarnir eru ákaflega vandlátir í tilboðum sínum til fyrirtækja og einstaklinga á starfssvæði Byggðastofnunar. Eftir sitja fyrirtæki sem hafa veikari fjárhagslegan grunn og atvinnugreinar sem tímabundið lenda í vandræðum vegna ýmissa ytri áhrifa. Hér er alls ekki verið að tala um fyrirtæki sem hafa óraunhæfar áætlanir og eiga sér ekki rekstrargrundvöll heldur fyrst og fremst fyrirtæki og atvinnugreinar sem t.d. lenda í tímabundnum erfiðleikum og áföllum en eru einstökum byggðarlögum ákaflega mikilvæg með tilliti til atvinnu og búsetu fólks.

Að lokum, frú forseti, vil ég leggja áherslu á að ég tel að það átak sem ríkisstjórnin ákvað að fara í í upphafi árs 2003 og fól í sér að Byggðastofnun var falið að fjárfesta í sprotafyrirtækjum og fyrirtækjum í skýrum vexti, sem og veita styrki til verkefna sem ætla má að styrki grunngerð viðkomandi samfélags, hafi verið ákaflega gott framtak og til þess fallið að efla atvinnuþróun og nýsköpun á landsbyggðinni. Það er ákaflega mikilsvert að geta fylgt eftir þeim verkefnum sem þá urðu til og jafnframt ráðist í ný verkefni af þessu tagi. Þetta var lofsvert framtak ríkisstjórnarinnar og mun skapa mörg ný störf á landsbyggðinni.

Frú forseti. Ég lýk nú máli mínu og geng út frá því að að lokinni þessari umræðu gangi málið til hv. iðnaðarnefndar.