131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Efling fjárhags Byggðastofnunar.

468. mál
[19:02]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna alveg sérstaklega þeirri tillögu sem hér var fylgt úr hlaði. Ég vil jafnframt vekja athygli á því að flutningsmaður tillögunnar er formaður stjórnar Byggðastofnunar og veit svo sannarlega um hvað hún var að tala og ég tel að hvert orð sem hún flutti í ræðu sinni hafi verið rétt og á margan hátt alls ekki ofsagt í neinu því sem hún sagði.

Skoðun mín er sú að Byggðastofnun hafi ákaflega mikilvægu hlutverki að gegna og ég tel það mikla skömm hversu erfitt Byggðastofnun hefur verið gert á undanförnum árum að rækta þetta hlutverk sitt með sóma og er sífellt örðugra um vik. Þar er í raun ekki alltaf stjórnvöldum um að kenna heldur einnig þróun hér innan lands eins og hv. flutningsmaður kom inn á, þ.e. þróun á bankamarkaði.

En þegar svo ber við sem flutningsmaður lýsti þá er það líka skylda stjórnvalda að bregðast við. Og ég verð nú að segja það, frú forseti, að það hryggir mig að hæstv. ráðherra byggðamála skuli ekki vera viðstödd umræðuna í dag. Ég vona að sú staðreynd að þetta mál var sett á dagskrá þennan dag, því vitað var að hæstv. ráðherra gæti ekki verið viðstödd, þýði ekki að hún hafi ekki áhuga á því að eiga orðastað við hv. flutningsmann um málið, einmitt þá manneskju sem hvað best þekkir til þessara mála af þeim sem nú sitja á þingi. Ég vek athygli á að hv. þingmaður á aðeins eftir að sitja hér örfáa daga í viðbót en hæstv. ráðherra hefði væntanlega gefist kostur á að eiga orðastað við hana ef tillagan hefði verið á dagskrá næstkomandi fimmtudag en þá verður hv. þingmaður enn á þingi.

En ég ítreka það að ég vona að þetta þýði ekki að ráðherrann vilji helst svæfa þetta í nefnd án þess að leggja nokkuð til málanna.

Ég lýsi eindregnum stuðningi mínum við málið eins og fram hefur komið í máli mínu. Ég hef verið beðin um að flytja hér stutt mál í dag og ætla að verða við því og þakka enn og aftur hv. þingmanni fyrir þessa tillögu.

(Forseti (SP): Vegna orða hv. þingmanns vill forseti vekja athygli á því að gert var samkomulag hér í þinginu um að ljúka þingstörfum klukkan sjö.)