131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Sala ríkiseigna.

412. mál
[12:17]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og flestum er kunnugt hefur núverandi ríkisstjórn og jafnvel sú sem sat á undan henni haft talsverða forgöngu um það að selja ríkiseignir. Í gegnum tíðina hefur umræða um þessa sölu verið margvísleg og ýmislegt farið í loftið. Oft og tíðum hafa menn verið mjög hugsi og gagnrýnir á þær aðferðir sem notaðar hafa verið við sölu. Má til að mynda nefna það að í dag er í gangi mál sem hefur verið höfðað vegna sölu á bréfum í Íslenskum aðalverktökum. Það er því að minni hyggju gríðarlega mikilvægt að þegar ríkið selur ríkiseignir sé aðferðafræðin gegnsæ og yfir vafa hafin.

Ég veit að á árinu 1996 setti ríkisstjórnin sér verklagsreglur um útboð og sölu ríkisfyrirtækja en veruleikinn er samt sem áður sá að þær reglur eru mjög óljósar og fátt neglt niður þannig að það liggi algerlega ljóst fyrir hvernig skuli staðið að sölu og hverjir geti keypt. Ég tel fulla ástæðu til að endurskoða það og reyna þá að eyða ákveðinni óvissu sem hefur fylgt mismunandi aðferðum við sölu á eignarhlutum ríkisins í fyrirtækjum og útboðum.

Það sem einnig vekur athygli í þessum verklagsreglum er 10. gr. sem kveður á um að heimilt sé að víkja þessum reglum frá við sérstakar aðstæður. Það hefur á stundum verið gert. Á sama hátt hefur þetta söluferli verið túlkað þannig að ákvæði stjórnsýslulaga eigi ekki við um kaup og sölu eigna ríkisins.

Af þessum sökum, virðulegi forseti, finnst mér afar mikilvægt að við ræðum þessi mál hér, ræðum það hvernig menn sjá framtíðina fyrir sér og ekki síst í ljósi þess að líklega er fyrirhuguð núna stærsta sala ríkisins frá upphafi, þ.e. sala á Símanum. Af þessum sökum, virðulegi forseti, hef ég borið hér fram fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra.

Hún er svona:

1. Hver fer með umboð ríkisins við sölu ríkiseigna, af hvaða reglum er hann bundinn og til hvaða sjónarmiða ber honum að líta þegar ákvörðun er tekin um málsmeðferð og hvernig að sölunni skuli staðið?

2. Gilda samræmdar reglur um sölu ríkiseigna eða sérstakar reglur í hverju tilviki? Er misjafnt hvaða aðferð er notuð eftir því hver annast sölu?

3. Er í undirbúningi lagasetning um hvernig fara skuli að við sölu ríkiseigna?