131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Sala ríkiseigna.

412. mál
[12:24]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Sala ríkiseigna og meðferð þeirra er stórmál og afar athyglisverð eru hér orð hæstv. fjármálaráðherra um að farið sé eftir reglum og að allir skuli eiga jafnan rétt til að bjóða í þær — nema ef sérstakt frávik verður, eins og er í þessum lið nr. 10, að víkja megi frá þessum reglum. Það hefur að mínu viti verið gert í flestum tilvikum.

Bankarnir, voru þeir seldir eftir þeim reglum sem upp voru settar í byrjun? Nei. Reglan sem gilti var að þeim skyldi skipt jafnt milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Mun ekki sú sama regla gilda núna um Símann? Er þetta ekki eina reglan sem í gangi er, þ.e. helmingaskiptaregla Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins um þessar ríkiseignir? Er ekki óþarfi að vera með allar þessar reglur á blaði sem ekkert er farið eftir? Er ekki bara að skipta þessu, og hvernig á að skipta Símanum á milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins? Ég held að það sé spurningin sem við stöndum nú frammi fyrir, frú forseti.